08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

23. mál, Tunga í Skutulsfirði

Björn Stefánsson:

Það er nú upplýst, að þetta skógarítak, sem um er að ræða, er um 20 dagsláttur að stærð, er virt á 200 kr. og kvenfjelagið Ósk á Ísafirði hefir leigt helming þeirrar spildu og látið girða það. Nú vildi jeg slá því fram, hvort ekki sýndist tiltækilegt að gefa kvenfjelaginu þetta land. Mjer fyndist það verðug viðurkenning á framtakssemi þess og dugnaði, og ekki nema um 100 kr. að ræða, þótt þörf þætti að lækka söluverð jarðarinnar fyrir það, að þetta er undan dregið. Því mun verða borið við, að fjelagið hafi ekki beðið um þetta, en þar til er því að svara, að jeg býst alls ekki við, að það sjeu altaf þeir allra verðugustu í landinu, sem bera sig eftir viðurkenningu hjá þinginu, og að stundum sjeu verðlaun veitt þeim, sem lítið hafa til þeirra unnið. Þess vegna finst mjer vel við eiga, að Alþingi veitti einu sinni slík verðlaun ótilkvatt, þar sem það kemur auga á verðleikann og þar sem tækifærið kemur svona sjálfkrafa, eins og hjer á sjer stað.

Þetta vildi jeg biðja nefndina að athuga til næstu umræðu.