13.07.1917
Efri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

39. mál, fasteignamat

Guðmundur Ólafsson:

Jeg verð að gera háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) það til heiðurs að segja örfá orð, því að hann fann ástæðu til þess að geta mín í ræðu sinni, þótt hann gæti ekki farið rjett með.

Jeg ætla mjer ekki að svara háttv. þm. (G. G.) orði til orðs, en tala nokkuð um ástæður hans.

Jeg skal ekki þræta um það, að betur megi ganga frá 9. gr. fasteignamatslaganna en þingið 1915 gerði, en það eru auðsjáanlega miklir erfiðleikar á því, því að í vetur kom fram í þinginu frv. um breyting á orðalagi greinar þessarar, er ekki varð útrætt, og nú vill háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) breyta henni á annan veg en þá var farið fram á, en láta þá þau ákvæði standa, er mæla fyrir um, að húsa- og jarðabætur, er gerðar hafa verið síðustu 10 árin á undan matinu, sjeu undanþegnar skatti, og segir hann þó, að það sje versti hluti greinarinnar. Ekki tekst honum vel.

Honum þótti þetta, um 10 árin, svo slæmt vegna þess, að jarðamatið færi fram ef til vill á 2—3 árum, en það skilst mjer vera harla þýðingarlítið, því að altaf verða þó einhver 10 ár síðust á undan matinu.

Annars er margt kynlegt í Strandasýslu, eftir því er háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) segist frá. Jeg minnist ekki að hafa heyrt þess getið fyr en nú, að jarðabætur sjeu þar svo miklar, að hæfilegt mat á þeim um 10 ár verði ýmist eins hátt og hæfilegt verð á jörðinni allri, eða hærra, svo að hundruðum króna skiftir, en þannig er því varið, ef það er rjett, sem háttv. flm. (G. G.) sagði, að greiða hefði þurft einum bónda 400 kr. til þess, að hann hefði verið skaðlaus af að fá jörðina gefins fyrir 10 árum. Jarðabætur síðustu 10 ára 1400 kr. virði, en jörðin með jarðabótunum ekki nema 1000 kr. virði! Þetta eru jarðabætur, sem um munar, og ekki ósanngjarnt, að ábúandi njóti góðs af.

Þegar fasteignamatslögin voru samþykt á þinginu, var það álit allra, að sú jörð væri ekki nægilega húsuð, þar sem virðingarverð húsanna væri ekki meira en þriðjungur af samanlagðri virðingarupphæð húsanna og jarðarinnar, og þetta tel jeg rjett. Enda er verð húsa, er fer fram yfir það, skattfrjálst.

Háttv. flm. (G. G). vill gera greinarmun á því, hvort það sje leigjandi eða eigandi, sem eigi að greiða skattinn, en mjer finst ekki vera hægt að skilja 9. gr. fasteignamatslaganna öðruvísi en svo, að leigjandi eigi að greiða hann. Jeg held því, að breyting háttv. flm. (G. G.) yrði að eins til að gera glundroða, gera öllum erfiðara fyrir.

Það vita allir, að fólk vill hliðra sjer hjá skattgreiðslum og yrði því ef til vill stundum ekki rjett greint á milli húsa eiganda jarðar og húsa leiguliða, en mjer finst það ekki neitt ranglæti, þótt greiða beri skatt af húsum eins í sveitum sem kauptúnum, og vita þó væntanlega allir, eins hv. flm. (G. G.), að kaupstaðarbúar hafa lengt greitt húsaskatt. Annað mál er það, að skattur af húsum, er leiguliðar eiga, ætti að vera til muna lægri en skattur af húsum jarðeiganda.

Háttv. flm. (G. G) sagði enn fremur, að húsaskatturinn væri eins og hegning á þá menn, sem rjeðust í húsabyggingar. Jeg fæ ekki sjeð, að þessu sje á nokkurn hátt öðruvísi varið en með jarðarskattinn. Hann vex vitanlega að sama skapi og jarðabæturnar aukast og jörðinni fer fram. Og eftir því ætti jarðarskatturinn að vera hegning fyrir jarðabætur. Ef annars er hugsanlegt, að skatturinn geti haft þessar afleiðingar, gæti það orkað tvímælis, hvort hættulegra er, svo að þessi ástæða er í raun og veru ljettvæg.

Annars er jeg sannfærður um, að þessi 9. gr. laganna þarf meiri athugunar við, áður en skattur af jörðum og húsum er fastákveðinn, en gert er ráð fyrir í þessu frv. (Atvinnumálaráðherra: Landbúnaðarnefndin athugar hana væntanlega vandlega.) Já, líklegt er það, fyrst að sjálfur flm. frv. (G. G.) er í henni.

Háttv. flutnm. (G. G.) stendur víst í þeirri meiningu, að kaupgjaldið hafi rekið mig til þess að tala í vetur. Þetta er misskilningur. Mjer er í raun og veru sama um, hvort það er 5, 6 eða 7 kr. Jeg játa það, að 7 krónu gjald er ekki ofhátt í sjálfu sjer, en það er ofhátt í samanburði við aðra borgun fyrir opinber störf. Hv. flutnm. (G. G.) talaði um, að hann hefði orðið að gjalda 4 kr. í hestleigu á dag. Það er, nú satt að segja, hæsta hestleiga, sem jeg hefi heyrt getið um í sveitum. Og víst er um það, að þingið hefir ekki gert ráð fyrir öðru eins. Annars kom það fram í ræðu hv. flm. (G. G.), að nefndarmennirnir hefðu ekki þurft að borga fyrir sig á bæjunum. Þingið hefir líka auðvitað gert ráð fyrir því. Enda hygg jeg, að það muni vera óvíða í sveitum, að fasteignamatsmenn hafi orðið að borga fyrir næturgreiða sinn. Í sjávarþorpum er auðvitað alt öðru máli að gegna.

Hvað það snertir að láta þetta ákvæði ná aftur í tímann, sem hv. flm. (G. G.) mintist á, þá verður naumast litið á það annan veg en að hann hafi sagt þetta í spaugi. Því að það nær vitanlega ekki nokkurri átt. Og sje þetta gert með tilliti til þeirra slóða, sem varla sjeu byrjaðir á verkinu, þá eru þeir tæplega til, því að víðast hvar mun verkinu vera meira en hálflokið. Annars er hreinn óþarfi að hræðast það svo mjög, að jeg muni sjerstaklega bregða fæti fyrir þetta ákvæði. Eins og jeg hefi tekið fram þykir mjer kaupið í sjálfu sjer ekki ofhátt, ef þingið gerir öðrum störfum jafnhátt undir höfði. En nú sje jeg, að í hv. Nd. er fram komið frv. til laga um forðagæslu, sem jeg hefi lítillega kynt mjer, og líst að mörgu leyti vel á, og er þar gert ráð fyrir 5 króna dagkaupi til forðagæslumannanna. Jeg fæ ekki sjeð, að nein ástæða sje til að hafa kaupið hærra fyrir fasteignamatsmennina, því að ferðalög þeirra eru alls ekki erfiðari.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) benti á, að sýslunefndarmenn hefðu ekki nema 4 kr. í kaup á dag, og yrði þá nokkuð ósamræmi í þessu. Annars er það auðvitað gott að launa öllum vel, ef fje skorti ekki til þess.

Hv. 1. þm. Rang. (E. P.) fór hlýjum orðum um frv. þetta, en vildi þó láta sleppa öllum skatti af húsum. Jeg get ekki felt mig við þá till., en jeg mun greiða atkv. mitt með því, að málið gangi til 3. umr. og verði sett í nefnd.