08.08.1917
Efri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

39. mál, fasteignamat

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Ólafsson):

Háttv. frsm. minni hlutans (G. G.) byrjaði mál sitt á að lýsa yfir því, að lítill drengskapur lýsti sjer í afskiftum mínum af þessu máli. En jeg held, að háttv. þm. (G. G.) farist ekki að bera mjer á brýn ódrengskap, enda neita jeg því fastlega, að jeg hafi komið ódrengilega fram á einn eða annan hátt í málinu.

Háttv. frsm. minni hl. (G. G.) gat þess, að jeg hefði verið með breytingu á greininni, þegar málið var til umræðu í nefnd. En jeg sagði þá aldrei og hefi aldrei sagt, að mjer þætti þörf að breyta greininni nú. En jeg sagði, að svo gæti farið, að það þyrfti að breyta henni síðar, og að brtt. flm. (G. G.) á þessari grein væru ekki til bóta.

Þá las hann upp kafla úr nefndaráliti meiri hlutans og ljet þess getið um leið, að við hefðum ekki neitt vit á málinu. Og þessi staðhæfing flm.(G.G.) er í góðu samræmi við það, sem hann sagði áður, að hann einn hefði vit á þessu máli, og þykist jeg fullviss um, að mjer takist ekki að bifa þeirri trú hjá honum. Hann kvaðst ekki taka mikið mark á setningunni: »en telja má líklegt, ef ekki víst, að á flestum jörðum verði talsvert af húsum undanþegið skatti, og að hús leiguliða verði þá fremur látin njóta þeirra hlunninda en hús jarðeiganda, má álíta sjálfsagt«. Það gæti auðvitað komið fyrir, að leiguliðarnir yrðu ekki rjetthærri en jarðeigendurnir í þessu tilliti, en það er þó ekki sennilegt.

Þá hefir hann mjög reynt að fræða okkur um, hvernig fasteignamatsnefndarmenn höguðu sjer. En jeg skil ekki, að honum sje neitt verulega kunnugt um, hvernig fasteignamatsnefndarmenn haga sjer yfirleitt, jafnvel þótt hann sje fasteignamatsnefndarmaður sjálfur. Jeg er hræddur um, að þekking hans á þessu hljóti að vera takmörkuð, og hann hefir enga sönnun fyrir því, að einhverjir geti ekki litið á þetta atriði á sama veg og meiri hluti nefndarinnar.

Þá bar hann mjer það á brýn, að jeg væri móti breytingunni, bæði í nútíð og framtíð, og hjelt að kjósendur mínir mundu ekki kunna mjer þakkir fyrir. En jeg hefi aldrei sagt, að jeg mundi altaf verða á móti breytingu; og jeg óttast ekki dóm kjósenda minna um afskifti mín af þessu máli.

Þá tók hann dæmi af jörð, sem metin væri á 10 þús. kr., og húsum, sem metin væru sama verði, eða samtals á 20 þús. kr. Þá yrði greiddur skattur af 15 þús. kr. eftir lögunum. Þetta er rjett athugað. En háttv. flm. (G. G.) hefir skotist yfir það, að niðurstaðan verður samt alveg hin sama sem eftir hans eigin tillögu. Hjer er því ekki um neina breytingu að ræða. Munurinn gæti að vísu orðið dálítill í einstaka tilfellum, en hins vegar óvíst, hversu mikill hann yrði.

Einnig hefir hann (G. G.) haft mörg orð um það, að greiða beri skatt af 10 ára mannvirkjum. Jeg skal ekkert fullyrða um það, hversu heppilegt það yrði fyrir landbúnaðinn að leggja skatt á allar þær jarðabætur, sem unnar hefðu verið síðustu 10 árin á jörðinni. En hræddur er jeg um, að slíkur skattur mundi ekki hvetja menn til jarðabóta, ef þær verða gerðar skattskyldar þegar á fyrsta ári.

Loks talaði hann (G. G.) um kaup matsmanna. Hann sagðist ætlast til, að bæði yfirmatsnefndarmenn og fasteignamatsmenn fengju hækkað kaup sitt. En í frv. gerði hann ráð fyrir, að að eins fasteignamatsmenn fengju hækkað kaup. Hjer er því um stefnubreytingu að ræða hjá háttv. flm. (G. G.).

Þá er það líka stefnubreyting hjá hv. flm. (G. G.) að vilja nú leggja skatt á hús leiguliða; jeg man ekki til þess, að þetta kæmi til tals í nefndinni. En flm.(G. G.) var samt áreiðanlega á móti því við 1. umræðu málsins hjer í hv. deild, að hús leiguliða væru skattskyld. En nú hefir honum snúist hugur um þetta ákvæði, eins og við var að búast.