10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Sigurður Sigurðsson:

Mjer er það ekki ljóst, hver nauður rekur til að samþ. frv. þetta nú á þessu þingi. Mjer skilst eftir 1. gr. frv., þar sem stendur, að skólann skuli stofna í grend við Akureyri, að enn muni það óákveðið, hvar skólann skuli setja. Kunnugir menn segja mjer, að nú muni vart kostur á jörð í nánd við Akureyri fyrir skólasetur. En á meðan því er ekki slegið föstu, hvar skólinn á að vera, þá liggur ekki mjög á að samþykkja frv., því að fyrsta atriðið er þó að koma sjer saman um, hvar skólinn skuli standa. Kjarni var seldur, illu heilli, hjer um árið, og honum er nú skift upp á milli Akureyrarbúa, svo að vart er um hann að tala fyrir skólasetur nú, svo vel sem hann hefði þó verið til þess fallinn. 6. gr. frv. segir: »Lög þessi koma til framkvæmda þegar efni og annað, sem með þarf til skólans, verður fáanlegt með viðunanlegum kjörum.« Hjer ber enn að sama brunni, að skólanum muni ekki verða komið upp tvö næstu árin. Virðist því málið vel mega bíða til næsta þings; þá hafa menn má ske komið sjer saman um, hvar skólinn skuli standa. Enn mun nokkur togstreita um skólastaðinn. Akureyrarbúar vilja hafa skólann hjá sjer, en aðrir þar nyrðra vilja hafa hann á jörð í sveit, en þó nálægt Akureyri. Á meðan menn hafa ekki jafnað þetta mál með sjer, sýnist hyggilegra að fresta því og samþ. það ekki hjer í þinginu. Sje jeg mjer því ekki fært að greiða atkv. með frv. nú að þessu sinni.