10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Einar Árnason:

Jeg er samdóma háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) um það, að jeg álít, að betra hefði verið að taka það fram, að skólinn ætti að standa í sveit. Að sönnu er það tilfært, að skólinn skuli reka búskap, og það bendir til þess, að hann eigi að vera í sveit. Það er auðfundið, að það er verið að reyna að binda hann sem fastast við Akureyri. Viðvíkjandi brtt. á þgskj. 853 og því, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, er það að segja, að jeg álít ómögulegt að reka búskap svo nálægt Akureyri, að stúlkur þaðan geti gengið þangað. Þar er hver blettur orðinn svo afardýr, að ekki getur komið til mála að kaupa þar land undir skólann, en ef hins vegar á að fara út fyrir takmörk Akureyrar, verður ómögulegt fyrir stúlkur úr bænum að ganga í skólann. Það er langt frá því, að jeg vilji hafa skólann af Akureyringum, en jeg hygg, að naumast sje hægt að hafa það öðruvísi en svo, að sveitirnar fái sinn skóla og Akureyringar sinn. Jeg hefði getað sætt mig við, að tiltekið hefði verið, að skólinn skyldi vera á Norðurlandi, án þess að tiltekið væri, að hann skyldi vera í Eyjafirði, einungis ef það hefði verið fastákveðið, að hann skyldi vera í sveit Jeg tel naumast viðeigandi að tala um siðspillingu í þessu sambandi, eins og háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) gerði, því að það eru aðrar ástæður til þess, að við viljum hafa hann í sveit. Jeg er þakklátur háttv. frsm. (B. J.) fyrir, að hann tók það fram, að það væri ekki til ofmikils ætlast, að allur Norðlendingafjórðungur fengi skóla með 40 heimavistum. Jeg tel óvíst, að jeg greiði atkvæði með frv., ef brtt. á þgskj. 853 verður samþykt.