10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

82. mál, skipun prestakalla

Jón Jónsson:

Jeg verð að taka undir með hæstv. forsætisráðherra. Jeg vil beina athygli manna að því, að allsherjarnefnd hefir áður lagt til, að læknishjeruðum sje ekki fjölgað; nú ræður hún aftur til að fjölga prestaköllum. Bæði er nú það, að frv. þetta hefir tvisvar áður komið fyrir þingið, og svo var skipun prestakalla fyrir komið að vel athuguðu máli; bæði milliþinganefnd og svo þingið höfðu farið með það mál. Jeg álít því, að ekki komi til mála að breyta nokkru um þá hluti, nema gagngerð breyting verði á kirkjumálum eða prestakallaskipun um land alt. Nefndin hefir ekki athugað, að það stoðar ekki að vera á móti breytingartillögum í líka átt, er fyrir þingið kynnu að koma, ef þetta verður samþykt; enda virðist mjer nefndin ekki hafa lagt mikið verk í þetta mál, Nál., er ekki nema 2 línur.

Jeg held, að það sje fortakslaust rangt að fjölga prestaköllum. Það ætti að vera stefnan að láta embættismenn hafa nógu stór hjeruð, svo að þeir geti haft nóg laun. Rjett er það að vísu, að hægara er að ná í prest ef stutt er til hans, en það verður þó ekki talin svo brýn nauðsyn, að það varði líf eða heilsu manna. Öðru máli er að gegna um fjölgun lækna. En því eru menn mótfallnir af þeirri ástæðu, að þá minki aukatekjurnar. Hið sama má segja um prestsembættin. Jeg fyrir mitt leyti er algerlega á móti frv., og álít jeg það mjög misráðið að fara að gera glundroða í prestakallaskipun landsins.