15.08.1917
Efri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

128. mál, stofnun landsbanka

Magnús Kristjánsson:

Jeg er í nokkrum vanda staddur með þetta mál, því að mjer virðast agnúarnir auðsæir á frv., en það hefir naumast batnað við meðferð nefndarinnar. Hún hefir að vísu gert þá sjálfsögðu breytingu á frv., að stjórnarráðið skuli skipa bankastjórana, en hún hefir jafnframt felt burt úr frv. 2. málsgr. 1. gr. Jeg á erfitt með að skilja, að þetta geti verið til bóta, því að jeg álít nauðsynlegt, að bankinn hafi lögfræðing í þjónustu sinni, og virðist því ástæðulaust af nefndinni að fella þetta atriði burt. Þetta veldur því, að jeg á erfitt með að greiða atkvæði með brtt. nefndarinnar, en frv. hefir, eins og jeg hefi getið um, ýmsa galla. Jeg geri helst ráð fyrir, að jeg verði að greiða atkvæði með frv. við þessa umr., í þeirri von, að nefndin taki til greina brtt., sem jeg kynni að gera við 3. umræðu málsins.

Mjer finst ástæðulaust að tala um málið alment að þessu sinni, en jeg get getið þess, að mjer virðist, að öllum ætti að vera það ljóst, að mikið gagn ætti af því að geta hlotist, ef vel tækist um val á þremur bankastjórum. Ef bankastjórarnir eru ekki nema tveir, þá eru þeir svo bundnir við starf sitt, að þeir hafa naumast tíma til að taka sjer ferð á hendur eða kynna sjer ýmislegt, sem að verki þeirra lýtur, en þeir eiga miklu hægra um vik ef þeir eru þrír. Það er margt fleira, sem mælir með þessari breytingu, en jeg læt þetta nægja að, þessu sinni.