05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

128. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg get verið stuttorður, með því að brtt. þær, er umræður helst myndu hafa snúist um, hafa nú verið teknar aftur, en þó get jeg ekki slept að minnast stuttlega á fáein atriði.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) furðaði á því, að frv. skyldi koma fram einmitt á þeim tíma, er viðskifti Landsbankans svo að segja lægju í dái. Mig furðar nú satt að segja á þessum ummælum frá honum, því að þegar breytingar þær, er frv. þetta gerir á landsbankalögunum, eru bornar saman við brtt. háttv. 1. þm. G.-K., þá er þar tvent ólíkt, því að brtt. gera ráð fyrir því feikna stjórnar- og starfsmannabákni, sem myndi kosta Landsbankann um 50 þús. kr. á ári, þegar það alt væri komið í fullan gang. En það, hvort viðskifti bankans eru í dái nú sem stendur, skiftir ekki svo miklu máli. Flestir munu búast við betri tímum, þegar stríðinu ljettir af, og efast víst enginn um, að þá verði nóg verksvið fyrir Landsbankann. Þessi mótbára á móti frv. er því einkis virði.

En þá kem jeg að því, sem sami háttv. þm. (B. K) taldi aðalatriðið, sem sje undirskriftir bankastjóranna. Hann taldi ekki forsvaranlegt að ganga svo frá því atriði, sem hjer er gert. Nú veit jeg ekki betur en að það sje regla, að ný lán sjeu ekki veitt nema báðir bankastjórarnir hafi leyft, og að gæslustjórarnir komi þar ekki til greina. Enda er það skýrt tekið fram í landsbankalögunum frá 1909, að báðir bankastjórarnir þurfi að undirskrifa, svo að gilt sje. Þess vegna hjálpar það ekkert nú, þótt gæslustjórarnir sjeu við, ef annan bankastjórann vantar. Frv. er því einmitt til bóta í þessu efni. Ef einn bankastjóranna væri á ferðalagi og annar væri t. d. veikur, þá sagði hann (B. K.), að komið væri í sama öngþveitið, en í því tilfelli gæti stjórnin skipað bankastjóra til bráðabirgða. Þetta hjelt hann (B. K.), að gæti ekki gengið eins og þegar menn drekka kaffibolla, því að það þyrfti að tilkynna það viðskiftamönnum bankans úti um allan heim. En það er alls ekki rjett hjá háttv. þm. (B. K.), að þetta sje nokkrum örðugleikum bundið. Fyrst og fremst er nú það, að viðskiftamenn Landsbankans eru víst ekki úti um allan heim, og þótt svo væri, þá er næsta auðvelt að fylla út tilkynningar um þetta — sem altaf eru fyrirliggjandi í bankanum — og láta þær í póstkassann. Þessi ástæða er því ekki næg til þess að taka til greina brtt. í þá átt, að gæslustjórunum verði haldið eingöngu í þessu skyni, auk þess sem það er óhentugt að öðru leyti, t. d. að með því móti komast óþarflega margir inn í launmál bankans, þar sem svo oft er skift um gæslustjórana; og jeg get ekki heldur fallist á það með sama háttv. þm. (B. K.), að það sje holt, að flokkarnir kjósi þá. Og vísa jeg til þess, er jeg sagði um það í fyrri ræðu minni og hefir ekki verið hrakið. (B. K.: En hvað segir hinn háttv. þm. um settu bankastjórana?). Það er yfirleitt markmiðið að komast sem mest hjá því, að bankastjórnin verði skipuð lausum mönnum.

Sama háttv. þm. (B. K.) þótti það óeðlilegt, að bankastjórnin rjeði ekki alla starfsmenn bankans, og bar það saman við það, að bændur ráða til sín vinnufólk. En hjer er ekki um hliðstætt dæmi að ræða. Bankastjórnin er ekki húsbóndi í venjulegum skilningi. Hjer er landsstjórnin húsbóndi, en bankastjórnin einskonar ráðsmaður; og skýtur hjer því skökku við. Jeg er á þeirri skoðun, og svo mun vera um fleiri, að núverandi fyrirkomulag sje heppilegra. Jeg held, að það sje varhugavert, að hinir föstu starfsmenn eigi alt sitt ráð undir bankastjórninni.

Þá sagði hinn háttv. þm. (B. K.), að flest ógæfuspor sín hefði þingið stigið á síðara hluta þingtímans. Þessu get jeg vel trúað, vegna þess, að aðalúrslit allra mála fara venjulega fram á síðara hluta þingtímans. Sama regla gildir því einnig um hin góðu málefnin. Þetta eru því engin mótmæli gegn frv., heldur er það sagt út í loftið og af tómum röksemdaþrotum.

Þá tók háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) það fram, að það væri misskilningur frá minni hálfu, að þetta væri kyrstöðufyrirkomulag, þar sem bankastjórnin væri skipuð 4 mönnum. Þessu er því til að svara, að það mun vera aðalreglan, að allar nefndir og stjórnir um allan hinn mentaða heim sjeu skipaðar þeirri tölu manna, að meiri og minni hluti geti myndast, svo að glöggur úrskurður fáist, þótt ágreiningur verði um eitthvert mál. Þetta fyrirkomulag á stjórn Landsbankans er því svo einstætt og andhælislegt, að furðulegt má heita, að nokkur skuli mæla því bót. (B. K.: Það hefir farið vel hingað til). Það kann nú vel að vera. En þótt eitt fari vel, þá er þó ekki þar með sagt, að eitthvað annað geti ekki farið betur.

Þá kem jeg að laununum. Háttv. þm. (B. K.) þóttu þau oflág, og færði til þær ástæður, að fyrir svo lítil laun myndi enginn af helstu fjármálamönnum eða atvinnurekendum landsins fást fyrir bankastjóra. Jeg skal fúslega viðurkenna, að þetta geti verið rjett hjá honum. En jeg er líka jafnsannfærður um, að ef háttv. þm. (B. K.) á hjer við þá menn, sem græða tugi eða jafnvel hundruð þús. kr. á ári á »spekulationum«, þá muni þeir ekki heldur líta við 10 þús. kr. laununum, sem hann stingur upp á. 50 þús. kr. skipulagið hans myndi ekki hjálpa neitt í því efni.

Þá vildi jeg minnast lítið eitt á »innskotsfjeð«. Það er ný hugmynd, og má vera, að það sje eitthvert vit í henni. En þó tel jeg það efasamt. Og nánari athugunar þarf það atriði en nú eru föng á. Jeg skal að eins taka það fram í þessu sambandi, að það er ekkert aðalatriði, að bankinn hafi tök á að safna undir sig innlendu fje, sem hvort sem er væri starfandi í landinu. Hitt er meira um vert, að hann hafi umráð yfir útlendu fjármagni, til stuðnings atvinnuvegum og framleiðslufyrirtækjum. Þá er og þess að gæta, að þetta »innskotsfje« mundu ekki aðrir leggja í bankann heldur en stórefnamenn, sem ekki þyrðu eða vildu nota fje sitt til framleiðslufyrirtækja eða annarar gagnsemi. Og með þessu er þeim gert svo hátt undir höfði, að þeir geta fengið alt að 7% vexti af þessu fje. Hinir aftur á móti, sem ekki eru svo efnum búnir, að þeir sjái sjer fært að festa fje sitt á þennan hátt, eða vilja nota það til annarar framleiðslu, fara algerlega á mis við þetta.

Þar sem jeg mintist á útibúin, þá er það ekki meining mín að halda því fram, að þau hafi verið í ólagi eða að bankinn hafi tapað á þeim. Jeg tek þetta fram til að fyrirbyggja misskilning, sem ræða háttv. þm. (B. K.) gaf tilefni til.

Þá lýsti háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) yfir því, að nú væri svo komið, að landsstjórnin útvegaði Landsbankanum fje, en ekki bankinn landsstjórninni. Og mjer heyrðist ánægjuhreimur í röddinni yfir því. Þetta sýnir tvent. Fyrst það, hversu alt bankafyrirkomulag okkar er öfugt, og í öðru lagi það, að sá maðurinn, sem mesta þekkingu og reynslu þykist hafa á bankamálum hjer, vill halda hlífiskildi yfir þessu úrelta og ómögulega fyrirkomulagi.