05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

128. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Einar Árnason):

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) þótti það ekki viðeigandi, að þetta frv. væri komið fram án þess, að það hefði áður verið borið undir bankastjórnina, og án þess, að till. hennar væru fengnar um málið.

Það var gerð breyting á bankalögunum á þinginu 1909, og mjer er ekki kunnugt um, að það frv. væri áður borið undir þáverandi bankastjórn, svo að fordæmi er fyrir þessu, enda býst jeg við, að það yrði nokkuð langt að bíða eftir breytingunni, ef það ætti að bíða þess, að bankastjórn ætti frumkvæðið.

Jeg skildi ekki fyllilega aðstöðu hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) í þessu máli. Hann fann gæslustjórafyrirkomulaginu ýmislegt til foráttu, en var þó ekki með frumvarpinu; jeg hefði þó vænst þess af honum, eins og hann talaði í garð gæslustjóranna. Það er skoðun nefndarinnar, að það verði að gera einhverja bráða breytingu á fyrirkomulaginu í bankanum, en hún hefir enga tryggingu fyrir því, að sú breyting komist á í fyrirsjáanlegri framtíð, ef alt á að bíða eftir því, að bankastjórnin og þingið komi sjer saman um hana, enda er ekki að búast við því, að tómir settir bankastjórar geri tillögur um slíkt mál. En þetta, að báðir aðalbankastjórarnir voru settir, en ekki skipaðir, hefir eflaust ýtt undir það, að þessi breyting var borin fram nú, því að, eins og kunnugt er, þá hefir það fyrirkomulag vakið megna óánægju um land alt. Af þessum ástæðum get jeg ekki fallist á þær röksemdir, sem komið hafa fram gegn þessu frumvarpi. Nefndinni finst hún ekki hafa gert annað en það, sem sjálfsagt var, að fallast á það.