24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

139. mál, útmælingar lóða

Benedikt Sveinsson:

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er soðið upp úr frv.-óskapnaði, sem hingað kom frá Ed. Nú hefir nefndin sniðið af því suma aðalgallana, t. d. þann, að heimta megi lóð til verslunar í fiskiverum, þar sem ekki er leyft að versla. Enn fremur, að hver, sem vill, geti tekið lóð til iðnaðarfyrirtækis, þótt ekki væri annað en að vefja vindlinga. Þessir stórgallar hafa nú verið lagaðir af nefndinni, og er það góðra gjalda vert, en mistekist hefir henni þó, er hún kemur fram með frv. breytt, á þgskj. 588, því að langrjettast hefði henni verið að ráða til að fella frv. með öllu.

Nefndin hefir kannast við það, að frv. hafi brotið bág við 50. gr. stjórnarskrárinnar, eins og það var, þegar það kom frá Ed. Þó að frv. sje nú eigi jafnvíðtækt í brotum á eignarrjetti sem áður, þá hefir nefndin þó alls eigi lagað þennan höfuðþverbrest frv. að fullu, eins og hverjum má vera ljóst, er les ummæli nál. og síðan till. nefndarinnar sjálfrar.

Það er hart, ef maður, sem á góða lóð, en getur ekki notað hana um sinn af einhverjum ástæðum, skuli skyldur að láta hana af hendi við hvern sem er, ef sá hinn sami þykist vilja setja eitthvert lítils háttar útgerðarfyrirtæki á stofn. Þetta væri hin mesta skerðing á eignarrjettinum, og þeir eru ekki fáir, sem hjer eiga hlut að máli. Menn geta krafist að fá útmældar lóðir, þar sem þeir eiga von á hækkun verðsins, vita t. d., að reka á útgerð að ófriðnum loknum eða gera hafnarvirki. Þessi skerðing mundi ekki eingöngu koma niður á einstökum mönnum, heldur og á landssjóði. Það er kunnugt, að landssjóður heldur enn eftir eignum, þar sem telja má líkleg hafnarstæði eða vel fallið til kauptúna o. s. frv. Eftir þessu frv. yrðu slíkar eignir í hershöndum. Það er að vísu gert ráð fyrir því, að lögin nái að eins til innlendra manna, en með því er þó engan veginn girt fyrir leppmensku; en nú vitum vjer það, að útlendar þjóðir ýmsar hafa mikinn hug á síldveiðum hjer við land; þeim er nú ekkert hægara en að láta leppa sína ganga í að ná tangarhaldi á lóðum, þar sem vænlegt væri til síldveiða — einmitt á meðan ekki er hægt að nota þær vegna styrjaldarinnar. Jeg er hræddur um, að það yrði ekki lítil skerðing á eignum landssjóðs, ef hin og þessi aðskotadýr, sem verða mundu sem mý á mykjuskán, heimtuðu sjer útmældar lóðir t. d. í Vestmannaeyjum eða Nesi í Norðfirði, kauptúnum, sem nú eru í miklum uppgangi, eða þá Siglufirði, Ingólfsfirði, Raufarhöfn eða öðrum slíkum stöðum, og nytu þess eins, að lóðir eru þar ef til vill lítið notaðar nú sem stendur.

Í 6. gr. frv. er þess getið, að lögin nái ekki til Reykjavíkur. Það er vel, að Reykjavík nýtur þessara forrjettinda, en hitt er síður ljóst, hvers vegna aðrir kaupstaðir, Hafnarfjörður, Skutilsfjörður, Akureyri og Seyðisfjörður, eiga að vera ofurseldir gripdeildum þeim og eignaráni, sem hjer er verið að heimila. Jeg er viss um, að hinum stærri kaupstöðum þykja það þungar búsifjar að láta lóðir af hendi við hina og þessa, hvar sem þeir vilja, ef ekki eru notaðar í svip. Þessar breytingar mundu bersýnilega koma miklum ruglingi á alt viðskiftalíf manna. Meðal annars yrði mikill ruglingur á veðum, er hvíla kunna á eignum þeim, er bútaðar kunna að verða niður og hrifsaðar af Pjetri og Páli. Mundi það valda allmiklum vafningum, fyrirhöfn og vandræðum að koma aftur lagi á veðböndin.

Hæstv. forsætisráðherra hefir lýst yfir því, að hann væri andvígur frv., enda er þess full von, að landsstjórnin vilji ekki stuðla að því, að þessi lög nái fram að ganga, svo ljelega sem frá þeim er gengið, og þó einkanlega þar sem landsstjórnin á hjer mikið í húfi; hún ræður yfir, fyrir landssjóðs hönd, miklum lóðum í kaupstöðum, kauptúnum og fiskiverum úti um alt land, og henni er skylt að varðveita rjett landsins yfir eignum þess.

Í samræmi við það, er jeg hefi nú fært rök fyrir, vil jeg leyfa mjer að bera fram og afhenda forseta svo felda rökstudda dagskrá:

Með því að frv. þetta felur í sjer mikilsvarðandi skerðing á eignarrjetti mjög margra einstakra manna og hins opinbera, hefir alls eigi verið rætt meðal þjóðarinnar og þyrfti grandgæfilegrar athugunar við, áður gert væri að lögum, og getur orkað því, að menn, bæði innlendir og útlendir, geti í skjóli slíkra laga náð undir sig verðmætum eignum fyrir lítið verð, — og í trausti þess, að stjórnin athugi málið til næsta þings, og leggi þá frv. fyrir þingið, ef henni þykir ástæða til, er hafi inni að halda bæði tryggingar fyrir eigendur lóða og sjávarútvegsmenn, er fá vilja útmældar lóðir í kaupstöðum og í löggiltum kauptúnum og fiskiverum, — tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.