19.07.1917
Neðri deild: 14. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (2080)

77. mál, kolanám

2080Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Mjer þykir mjög vænt um, að till. þessi er komin fram. Það hefir vakað fyrir stjórninni, að nauðsyn bæri til að vinna sem mest af íslenskum kolum. Tillagan herðir á þessari hugsun stjórnarinnar og hvetur til frekari aðgerða. En tillagan gerir meira en þetta. Hún heimilar fje til undirbúnings, sem ómögulegt er hjá að komast, ef nokkuð á að auka framkvæmdirnar að mun, og hjá því getur ekki farið, að það fje nemi töluverðri upphæð.

Mjer þótti vænt um að heyra, að hv. þm. Dala. (B. J.) virðir það, sem stjórnin hefir gert, en tók vægum höndum á því, sem hún hefir ekki gert. Jeg get að eins bætt því við það, sem hann tók fram, að stjórnin hefir látið rannsaka og vinna nokkuð í kolanámu á Tjörnesi. Enn fremur vil jeg taka það fram, að þó að tillagan komist svo ákveðið að orði, að fylt verði eldsneytisþörf landsmanna, þá er varhugavert að taka þau orð ofbókstaflega eða byggja ofmikið á þeim.

Þótt stjórnin væri öll af vilja gerð, þá er ekki líklegt, að hún geti látið vinna nóg kol til að fullnægja allra þörfum. Jeg tek þetta fram til þess, að enginn skuli treysta svo á kolanám landssjóðs, að hann láti undir höfuð leggjast að afla sjer eldsneytis annarsstaðar eða spara það. Nei, menn ættu ekki að láta neitt tækifæri ónotað til að afla sjer eldiviðar. Það er og verður erfitt að fullnægja allri þörf, einkum þar eð verið er að gera tilraun með kolin á skipunum, til að drýgja þann litla forða af skipakolum, sem til eru í landinu, ef þau skyldu reynast nothæf á skipum, til að halda við glóðinni, þegar lítil gufa er notuð.