10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

110. mál, fátækralög

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það er, eins og háttv. þm. er kunnugt, að þótt þessi lög sjeu ekki gömul, þá eru þau að mörgu leyti óheppileg. Jeg veit nú reyndar ekki, hvort háttv. þm. vilja breyta þeim, þrátt fyrir það, því að síðasta atkvgr. sýnir það, að þeir álíta sig ekki vera senda hingað til þess að gera rjett. Annars snertir þetta mál nú fleiri en Reykjavík.

Eins og menn vita verða þeir menn, sem leita til sveitanna, að tapa mannrjettindum sínum, og gera lögin þar engan greinarmun á, þannig að jafnmikill rjettarmissir verður fyrir þann, sem í fjárþrot kemst sakir sjúkdóma eða slysa, og fyrir slæpingjana, og enginn greinarmunur er heldur gerður á því, þótt menn hafi svo þunga fjölskyldu fram að færa, að þeir geti ekki staðið straum af henni. Þetta ákaflega mikla ranglæti sýnir, að nauðsyn er á að gera meiri greinarmun á styrkþegum og taka ekki rjettindi af þeim mönnum, sem styrks leita vegna óviðráðanlegra orsaka.

Í annan stað þarf að athuga flutning þurfamanna milli hreppa. Jeg veit, að stundum er meðferð þeirra í slíkum flutningi mjög mannúðleg, en fyrir mun það koma, að flutningurinn fari ekki fram svo sem skyldi.

Loks er eitt atriði, sem athuga þarf; jeg á við viðskifti hreppa. Fresturinn er þar settur svo stuttur, að oft er ókleift að leita þeirra skýrslna, sem nauðsynlegar eru.

Með þessu hefi jeg að eins viljað benda á fáein atriði, sem athuga þarf. Jeg held ekki, að ástæða sje til þess að fara lengra út í málið; væntanlega tekur stjórnin málið til ítarlegrar athugunar, ef till. nær samþykki háttv. þingdeildar.