09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

141. mál, ásetningur búpenings

Hákon Kristófersson:

Jeg get verið stuttorður, því að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefir að mestu tekið fram það, sem jeg vildi sagt hafa.

Mjer blandast ekki hugur um, að hv. nefnd gengur gott eitt til að bera fram þessa till. En hitt er mjer alveg óskiljanlegt, að tilganginum verði náð, þótt þessi till. verði samþ. Hv. frsm. (J. J.) sagði, að ásetning væri í miklu ólagi hjá bændum. Hann hefir eflaust mikið til síns máls; en jeg sje ekki, að það ólag lagist neitt, þótt þessi till. verði samþ. Og jeg verð að líta svo á, að þar sem við höfum forðagæslulögin, þá sje þetta atriði nokkurn veginn trygt, ef lögunum er framfylgt.

Hv. frsm. (J. J.) sagði, að almenningur mundi taka því vel, ef stjórnarvöldin blönduðu sjer í málið, sem getur eigi orðið á annan hátt en að stjórnarráðið skrifi brjef út um sveitirnar.

Ef það liggur eigi á tilfinningu bænda sjálfra að setja þolanlega á, þá efast jeg um, að það hafi nokkra þýðingu, þótt stjórnin færi að skifta sjer af ásetning þeirra. Jeg held, að fóðurbirgðamálinu verði ekki fremur stýrt í hagkvæma höfn, þótt stjórnarráðið sitji við stýrið.

Hv. frsm. (J. J.) sagði, að ef málið væri rætt í bróðerni meðal bænda, þá mundi það hafa góðar afleiðingar. Mjer finst þetta vera vantraust á okkur bændum, að álíta, að við munum ekki geta rætt málið í bróðerni og gert tryggilegar ráðstafanir, eftir því er best virðist við eiga, án íhlutunar frá hæstv. stjórn.

Hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) sagði, að forðagæslulögunum væri ekki hlýtt. Jeg sje ekki, að þessi till. muni auka hlýðni við þau lög. Sami hv. þm. (Þorl. J.) sagði, að fellir ætti sjer nú stað á hverju ári. Það er hart að heyra þessa yfirlýsingu hvert árið eftir annað, en verst af öllu er það þó, ef hún skyldi vera sönn; en jeg sje ekki, að þessi till. komi í veg fyrir felli. Sami hv. þm. (Þorl. J.) sagði, að yrði till. samþ., þá mundi almenningur taka málið í sínar hendur. Jeg get ekki betur sjeð en að bændur hafi nú fullan rjett á að taka málið til athugunar, án þess að fá um það tilmæli frá stjórninni. Það er vonandi almennur áhugi, að haustskoðun fari fram á hverju hausti, en þótt nokkuð vanti á, að framkvæmdir á þeirri skoðun sjeu svo góðar, sem skyldi, þá sje jeg ekki, að þessi tillaga bæti nokkuð úr því.

Jeg skal lýsa yfir því, að jeg lít á þetta mál nokkuð svipað og hv. 1. þm. S.-M.

(Sv. Ó.), að þessi till. sje ekkert annað en pappírsgagn, og mun því greiða atkv. á móti henni, sem alveg óþarfri og gagnslausri. Annars er það einkennilegt, hve hv. þingmenn virðast hafa mikla tilhneigingu til þess að vísa sem flestu til stjórnarinnar. Þótt jeg vilji á engan hátt gera lítið úr því trausti, er hæstv. stjórn á skilið, þá verð jeg að telja það líkast oftrausti á henni að hugsa sjer þá fjarstæðu, að hún hafi nokkur veruleg áhrif á ásetning hjá bændum og búandmönnum, hversu mörg brjef, sem hún hefir þá ánægju að gefa út um slíkt efni.