27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2179 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Bjarni Jónsson:

Jeg læt ekki uppi að svo komnu máli, hvort jeg verð fylgjandi þessari tillögu eða ekki. Jeg vil að eins benda á það, sem allir hljóta að sjá, að einhver verður að bera kostnaðinn af flutningi þessarar landssjóðsvöru út um land, annaðhvort landssjóður eða Reykvíkingar einir. Mjer finst, að það þurfi að koma til greina, ef meta á, hvernig Reykvíkingar fá vöruna keypta í samanburði við aðra, að það er veittur allhár styrkur eða fjárveiting úr landssjóði til bátaferða á flóum, fjörðum og vötnum, og það er varla gert beint fyrir Reykjavík. Þetta er vandamál, sem verður að athuga. Jeg mótmæli ekki því, að reynt verði að hafa verðið nokkuð jafnt, en jeg get ekki heldur fallist á, að flutningskostnaðurinn sje lagður í blindni á þann 1/6 allra landsmanna, sem býr hjer í Reykjavík, og veitt sje svo þar að auki stórfje til flutninga með ströndum fram. Það er vandaverk að reikna þetta rjett út, og jeg hygg, að málið sje ekki nægilega rannsakað enn, og því full ástæða til að láta það fá reglulega og nákvæma íhugun og meðferð í nefnd. Enginn getur haft neitt á móti því, að það verði rjettlátlega til lykta leitt, en þá má ekki heldur flaustra því af íhugunarlaust. Jeg játa það, að jeg er ekki tilbúinn að greiða atkvæði um þessa tillögu. Það þyrftu að liggja frammi ýmsir reikningar um flutningskostnað og þann kostnað, sem það hefði í för með sjer að skipa vörunni víðar upp en hjer í Reykjavík. Sennilegt er, að undir öllum kringumstæðum hljóti að falla töluverður kostnaður á landssjóð, og skal jeg síst lasta það, að hann taki þátt í kjörum manna, en jeg vil, að þeir, sem vilja spara hann, gæti að þessu.