21.07.1917
Efri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

83. mál, útvegun á nauðsynjavörum

Frsm. (Karl Einarsson):

Það er alveg rjett athugað hjá hæstv. ráðherra, að það er heppilegast, að bjargráðanefndirnar og þeir einstakir þingmenn, sem vilja koma með tillögur um endurbætur á landssjóðsversluninni, vinni sem best saman.

Jeg tók það einmitt fram í gær, að stjórnarráðinu vanst ekki tími til þess að láta nefndinni í tje skýrslur um verslun landsins, en þær skýrslur eru nú komnar fram. Nefndin áleit það óverjandi að draga það lengur að bera tillögu þessa fram, sem hún þegar hafði samþykt fyrir nokkru og sent stjórninni brjeflega. En þar sem nefndinni var það ljóst, að jafnt fyrir því þurfti að koma fram og samþykkja þingsályktun um málið, ef það átti að hafa nokkra þýðingu, þá kom hún fram með tillöguna, og hefi jeg þegar gert grein fyrir, að nefndin áleit ekki verjandi að draga það lengur,

Í tilefni af fyrirspurn hæstv. atvinnumálaráðherra um það, hvort ætlast sje til þess, að landsstjórnin sjái landinu fyrir ársbirgðum af nauðsynjavörum, vil jeg taka það fram, að í till. felst, að landsstjórnin sjái um, að forði þessi flytjist til landsins — sje til í landinu. Nefndin ætlast til þess, að landsstjórnin aðstoði þá menn, er flytja vörur hingað til landsins, sjerstaklega með því að útvega þeim skipakost. Það hafa verið aðalvandræði kaupmanna, hversu erfitt það er að fá skip til flutninga. Eins og öllum er kunnugt hafa aðalviðskifti kaupmanna verið við Danmörku og England. Sambandinu við Danmörku hefir verið slitið síðan í febrúar; að eins hafa örfá skip komið nú upp á síðkastið, og öll hafa þau verið fullfermd.

Hæstv. atvinnumálaráðherra mintist á vöruforða landsins. Taldi hann æskilegt, að landið hefði fyrirliggjandi 8 mánaða forða, en orð hans hafa verið misskilin, og er mjög óheppilegt, að slíkur misskilningur skuli eiga sjer stað.

Nefndinni er kunnugt um, að skortur er á steinolíu og salti. (Atvinnumálaráðherra: Og kolum). Já, og líka kolum mjög víða, og það svo mjög, að útgerð verður tæplega rekin í eins stórum stíl og áður. Og víða er jafnvel enn skortur á matvælum.

Það er tilætlun nefndarinnar, að stjórnin geri sjerstakar ráðstafanir til þess, að vörur þessar verði fluttar til landsins nú í sumar og í haust, og helst sem allra fyrst. En ekki ætlast nefndin til þess, að stjórnin liggi sjálf með allar þessar birgðir.

Stjórnin hefir látið safna skýrslum um birgðir einstakra manna. Til þessa eru nefndir í hverjum hreppi á landinu; gera þær skrá yfir vörur þær, sem í hvert hjerað koma, og þær vörur, er þar eru fyrirliggjandi. Með þessu er mjög auðvelt að fá upplýsingar um það, hvaða birgðir eru á hverjum stað á landinu á hverjum tíma sem er.

Tilætlun nefndarinnar er, að í sumar og haust verði flutt það af þessum vörum til landsins, sem á vantar ársforða, hvort sem landsstjórnin á þær vörur, kaupmenn eða aðrir.

Jeg ætla svo ekki að ræða meira um till. að sinni, en vona, að háttv. deild samþ. hana.