15.08.1917
Neðri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Benedikt Sveinsson:

Það er misskilningur hjá háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), að það sje nokkru hagkvæmari sú tilhögun, sem hann vill hafa á ferðunum. Það hefir áður verið samið um ferðirnar milli Seyðisfjarðar og Akureyrar. Það þarf því sjerstaka samninga um ferðirnar milli Sauðárkróks og Akureyrar. Nefndin hefir vel athugað þetta mál. Hún hugði reyndar fyrst, að svo fremi, að Þorsteinn Jónsson tækist þessar ferðir á hendur og notaði til þeirra sama bátinn sem til austurferðanna, þá væri umsvifaminst að fara ferðirnar vestur sem útúrkrók frá Siglufirði, til þess að spara sjer að fara aftur út og inn Eyjafjörð. En nú hefir nefndin einmitt talað um það við Þorstein Jónsson, hverja tilhögunina hann kjósi heldur, og hefir hann svarað því, að hann vilji eins vel fara frá Akureyri eins og frá Siglufirði, og það hafi Skagfirðingar einnig kosið, enda muni það nauðsynlegt, því að ef skipið hafi mikinn flutning frá Akureyri til hafnanna austur, þá geti það ekki tekið flutning á vesturhafnirnar og verði því að fara þangað sjerstakar ferðir. Þetta fyrirkomulag er því ekki síður Skagfirðingum í hag. Hjer er ekki heldur um það að ræða að slíta sundur ferðirnar, heldur að semja um nýjar ferðir. En á þeim samningum mun engin fyrirstaða verða, eftir því samtali, sem jeg hefi átt við herra Þorstein Jónsson um þetta, fyrir hönd nefndarinnar.

Jeg vona nú, að till. nefndarinnar verði látin ganga fram, því að till. háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) er bygð á misskilningi.