06.07.1917
Neðri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (2422)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Þórarinn Jónsson:

Jeg hefi litið svo á þetta frv., sem eitthvað annað byggi bak við það en að teppa þjóðjarðasöluna í bili. Það hefir verið látið í veðri vaka, að þetta væri að eins um stundar sakir, en mjer er grunur á, að svo sje að eins á yfirborðinu.

Af því að jeg er ekki samþykkur þessari stefnu, get jeg naumast látið vera að mótmæla henni.

Jeg hefi alla tíð verið þeirrar skoðunar, að þjóðjarðasalan hefði tvímælalaust gert mest að því að hrinda áfram ræktun landsins. Jeg hygg, að enginn geti neitað því, að þessum aðaltilgangi laganna hefir verið náð. Annað mál kann að vera um ýms aukaatriði, svo sem verð jarðanna og framkvæmd laganna. Því hefir verið haldið fram, að margar þjóðjarðir hafi verið seldar oflágu verði og að landssjóður hafi tapað á sölu þeirra. Þetta er alveg rangt. Hagur landssjóðs og hagur þjóðarinnar verður ekki aðskilinn. Hve nær er hægt að segja, að landssjóður hafi tapað? Ef það er þjóðargróði að selja jarðirnar, þá er það gróði landssjóðs einnig. En nú er því ekki að heilsa, að landssjóður hafi í raun og veru tapað í svipinn. Allar jarðir hafa verið seldar hærra verði en lögin tilskilja, þ. e. fyrir verð, sem svarar minst til

4 %, reiknað eftir afgjaldinu. En þetta skiftir engu; ef þjóðargróði er að sölunni, þá er hún líka landssjóðsgróði.

Menn hafa reynt að tína til dæmi upp á það gagnstæða, að sjálfseignarbændum hafi ekki búnast eins vel og leiguliðum. En þótt þess megi finna dæmi, þá getur enginn hrakið það, að sjálfsábúð hefir fleygt landinu mest fram, en sjálfsábúð er takmark þjóðjarðasölulaganna.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) gat þess, að á árunum 1893—1895 hefði risið sterk alda í þá átt, að hefta þjóðjarðasöluna, og nefndi nokkra menn, sem þeirrar skoðunar hefðu verið. Eg gæti líka nefnt nöfn andstæðrar skoðunar og þar á meðal einn mann, sem tvímælalaust er einn hinna vitrustu manna, sem á þingi hafa setið; jeg á við Eirík prófessor Briem. Þetta var honum hið mesta sannfæringarmál. Mjer kom það skrítilega fyrir að heyra hv. þm. S.-Þ.

(P. J.) nefndan í þessum flokki; en þótt hann hafi verið þeirrar skoðunar þá, þá hefir hann komist til betri trúar síðar, eins og sjá má á tillögum skattamálanefndarinnar 1907, sem hann átti sæti í.

Um framkvæmd laganna er það að segja, að jeg hygg, að stjórnin hafi í lögunum sjálfum næg ákvæði til þess að hefta sölu jarðanna, ef telja má það landinu í óhag. Ef stjórnarráðinu þykja sýslunefndir vera óvarkárar í þessum efnum, getur það ámint þær eða neitað um söluna. Þessi leið held jeg, að sje betri en að teppa söluna alveg, enda kæmi það mjög illa við nú, þar sem mjög lítið er orðið eftir af bestu jörðunum. Mjer er líka kunnugt um það, að sumir menn, sem hafa fengið heimild til kaupanna, hafa alls ekki fengið jarðirnar, og veit dæmi þess, að þeim hefir verið endursend 1. afborgun kaupverðsins, svo að jeg get vel ímyndað mjer, að einstakir menn kunni að höfða mál gegn landsstjórninni út af þessu. Mjer dylst það ekki, að hjer hefir komið fram stefnubreyting hjá stjórninni, en hún hefir orðið svo snögg, að menn hafa ekki varað sig á. Og þessari stefnubreytingu er jeg algerlega andvígur.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) gat þess, að sumir mundu leita kaupa á þjóðjörðum beinlínis í því skyni að græða á þeim. Jeg efast um, að þessa sjeu nokkur dæmi, því að þótt menn hafi selt aftur þjóðjarðir, sem þeir hafa keypt, þá er alls ekki víst, að þeir geri það í þessu augnamiði, þ. e. til að græða, heldur geta atvik legið svo til, að þeir þurfi að selja. En jafnvel þótt þeir hafi selt jarðirnar aftur, þá þarf það ekki að vera til ills; ef kaupandi hefir bætt jörðina, verður hann tekinn til fyrirmyndar af næsta eiganda.

Sami hv. þm. (S. S.) mintist á það, hve mikilsvert atriði í þessu máli væri sundurskifting jarðanna í grasbýli. En í þessu efni get jeg ekki heldur orðið honum samferða. Jeg held, að oss vanti enn sem komið er öll aðalskilyrði fyrir þessu fyrirkomulagi, þar á meðal lánsstofnanir. Þessi hugmynd, grasbýlin, er til vor komin frá útlöndum. En hjer er ólíku saman að jafna. Ef vjer berum saman kostnaðinn við að byggja og rækta landið við samskonar kostnað í öðrum löndum, þá er hann svo ólíkur sem svart og hvítt. Jeg hygg, að þetta fyrirkomulag mundi aldrei reynast hentugt hjer. Þeir, sem reyndu þetta, mundu fara á höfuðið. Eins og hjer hagar til, þá er engum kleift að lifa við örfáar skepnur, ef hann rekur ekki aðra atvinnu. Og ekki hefi jeg þá trú, að landsstjórnin yrði mönnum betri landsdrottinn en aðrir. Fyrir nokkrum árum var sett nefnd hjer á þingi, til þess að íhuga þetta mál, og yfirleitt sambandið milli landsdrottins og leiguliða. Árangurinn varð sá, að því var vísað til aðgerða stjórnarinnar; annað ráð fann nefndin ekki. Það hefir verið talað um að koma hjer á erfðafestu. En jeg sje engan veginn, að erfðafesta tryggi fremur en sjálfsábúð jarðirnar handa niðjunum, og síst af öllu gæti hún trygt þessa skiftingu jarðanna. Því yrði hún gerð að skilyrði fyrir ábúð, myndu menn fara sjer hægra að taka jarðirnar.

Það hefir ekki mikla þýðingu að fara sjerstaklega rækilega út í þetta mál nú. Jeg býst við, að því verði skotið til nefndar, og þá líklega helst til landbúnaðarnefndar. Jeg hefi í sjálfu sjer ekkert sjerlegt við það að athuga, en álít samt, að engin sjerstök ástæða geti verið til að hefta söluna.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) talaði um það, að bagi væri að því, að ekkert fast verð væri til þess að miða við nú. Það er víst alveg rjett, en jeg sje ekki fram á, að úr því muni greiðast í bráð. Vitanlega hefir þessi sveifla komið á verðið með ófriðnum, og ekki unt að segja, hve nær alt kemst í samt lag. En þetta ætti ekki að skifta neinu, því að auðvitað hækkar samtímis nokkuð að sama skapi virðingarverð jarðanna. Og ef stjórnin vill ekki hlíta virðingunni, þarf hún ekki að selja. Jeg býst við því, að jarðarverðhækkunin muni haldast lengi, og svo munu allir gera, sem nokkra trú hafa á landbúnaðinum.

Sjerstaklega hefi jeg þó þetta á móti frv., að það kemur illa niður á þeim, sem sitja á smájörðum og þegar hafa fengið leyfi til þess að kaupa ábúðarjarðir sínar, enda má yfirleitt segja það, að flestar þessar jarðir eru svo, að landssjóði verður ekkert úr þeim, eða hefir ekkert fje upp úr þeim. Og öldungis fráleita tel eg þá stefnu, að skifta jörðunum sundur í smábýli, eins og nú standa sakir.