20.07.1917
Neðri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (2437)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Stefán Stefánsson:

Bæði nú og áður er búið að segja margt um þjóðjarðasöluna, sem ekki er þörf á að endurtaka. En af því að óvægileg orð hafa hrotið í garð nefndarálitsins, vil jeg fyrir nefndarinnar hönd svara einstaka atriði.

Sumir hafa gert sjer það að leik að snúa út úr. Minni hl. maðurinn, 1. þm. Árn.

(S. S.), sagði, að meiri hlutinn teldi sjálfseignarbændur betri en aðra menn. Um þetta stendur alls ekkert í nefndarálitinu. Sjálfseignarbændur eru auðvitað upp og ofan, eins og aðrir menn. En við segjum, að eignarrjetturinn knýi fram það besta, sem sje í manninum, til dugnaðar og framkvæmda á sinni ábýlis- og eignarjörð. Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sveigði einnig að þessum orðum í nefndarálitinu og sneri út úr þeim, að því er mjer virtist, því að það hlýtur hann þó að skilja, að hjer er alls ekki átt við neitt sviplíka ábúð og hjáleiguábúð þræla á miðöldunum. Nei, með henni verður ekkert sannað, því að hún hefir verið algerlega gagnstæð þeirri sjálfsábúð, sem meiri hluti nefndarinnar heldur fram. Og þar sem nefndin telur sjálfseignarábúð besta tryggingu fyrir því, að jarðirnar sjeu bættar, þá er eigi nema eðlilegt, að hún haldi því fram, að hagkvæmast sje, til aukinnar jarðræktar og framfara í landbúnaði, að selja þjóðjarðirnar.

Hv. 1 þm. S.-M. (Sv. Ó.) efaðist um, að rjett væri, að eftirlit með ýmsum landssjóðsjörðum væri bágborið, og vildi fá að vita, að hverju leyti slíkt ætti sjer stað. Hvað þetta snertir, þá er mjer kunnugt um, að mjög góð jörð hefir verið bygð sem selstöðujörð bónda á næsta bæ, og af henni flutt bæði taða og úthey svo að miklu nemur árlega. Þegar svona er farið með bestu jarðirnar, er ekki ofdjúpt tekið í árinni að kalla eftirlitið bágborið. Annað dæmi skal jeg nefna, þar sem helmingur töðu og útheys er fluttur af þjóðjörðu, og enginn áburður veittur í stað þessa afrakstrar. Þetta er auðvitað svo frámunalegt, að slíkt ætti ekki að eiga sjer stað. (P. J.: Hefir það verið tilkynt stjórnarráðinu?) Það er mjer ekkert kunnugt um. En um þetta er mjer persónulega kunnugt, og jeg vonast til, að það sýni, að nefndin veður ekki algerlega reyk, þótt hún hafi leyft sjer að fullyrða, að eftirlitið sje ekki sem skyldi.

Annars hygg jeg þessu máli svo farið, að mestur hluti bænda sje hlyntur því, að salan fari fram. Það sýna flestar þingmálafundargerðir. Enda þekkja bændur best, hvílíka þýðingu það hefir, að ábúandinn eigi kotið, sem hann býr á. Hinir, sem aldrei hafa fengist við búskap, skilja það ekki.

Hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) sýndi fram á, hve ólíklegt er, að jarðir sjeu seldar mikið undir sannvirði, þar sem landstjórnin er engan veginn bundin við þá virðingu, sem fram fer í hjeraði, finnist henni rjettur landssjóðs vera fyrir borð borinn.

Það er því að mínu áliti fjarstæða, að jarðirnar, þótt þær verði seldar nú, verði seldar fyrir ¼ af sannvirði. Því að þrátt fyrir matsverðið hefir stjórnin fult leyfi til að setja verðið upp, eftir því sem hún álíturr rjett. En jeg lít svo á, að tilgangur laganna sje ekki sá að neita ábúendum kaupanna, þegar sýslunefndir hafa ekkert sjeð á móti sölunni. Og þar sem þingið 1915 feldi með allmiklum meiri hluta að fresta sölunni, var það sjáanlega tilætlun þingsins, að salan hjeldi áfram.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að lengja umr. Jeg býst við, að hv. framsm. svari andmælendum að öðru leyti.