13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (2455)

143. mál, verðhækkunartollur

Fjármálaráðherra (B. K.). Hv. þm. Stranda. (M. P.) tekur sjer það nærri, að þetta frv. skyldi vera borið fram, en það hefir verið gert fyrir þá sök, að stjórnin álítur, að það verði að halda við tekjunum, og vill ekki sjálf bera ábyrgð á, ef ekkert er sett í staðinn fyrir þá tekjustofna, sem hverfa. Hv. þm. þótti undarlegt, hvernig tölurnar voru gerðar í samanburði við breska samninginn. Stjórnin miðaði við það verð, sem víst er að fæst fyrir afurðirnar, því að hún vildi miða við, að landssjóður fengi einhverjar vissar tekjur, fengi álíka mörg % og síðastliðið ár. Það varð því að miða við það verð, sem til var. Það má deila um, af því að þetta heitir verðhækkunartollur, hvort hann á eingöngu að vera af gróða. En þegar landssjóður þarf tekjur, má eins leggja þetta á sem toll, Jeg hef heldur enga sönnun fyrir því fengið, að þjóðin hafi engan gróða af framleiðslunni. Jeg held, að hv. þm. geti ekki verið viss um það. Jeg er alveg samþykkur hv. þm. Dala (B. J.), að það má vel strika „verðhækkun“ framan af og kalla þetta bara toll; til þess þarf ekki að fella frv., heldur má laga það og breyta í nefnd. Það á ekki við, þótt þessi litli galli sje á því, að láta það ekki fara lengra, því að slíka smágalla má altaf laga. Þótt hv. fjárhagsnefnd hafi áður lýst yfir því, að hún væri mótfallin framlengingu verðhækkunartollsins, hafa kringumstæðurnar breyst svo síðan, að jeg sje ekki betur en hún geti sóma síns vegna vel fallist á frv. nú.

Síðustu spurningu hv. þm. Stranda. (M. P.), hvort stjórnin mundi gera þetta mál að fráfararatriði, get jeg ekki svarað að svo stöddu. Jeg hefi ekki borið mig saman við samstjórnarmenn mína um það, og get því ekkert um það sagt. En jeg vona, að háttv. deild taki þessu máli rólega og líti á nauðsynina, en annað ekki.