10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (2479)

143. mál, verðhækkunartollur

Gísli Sveinsson:

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð. Jeg býst nú við, að jeg, eins og fleiri úr fjárhagsnefnd, muni greiða atkvæði mitt á móti þessu frv., sem hjer liggur fyrir, og enn fremur á móti brtt. á þgskj. 800. Ekki þó af því, að sumar þeirra geti ekki verið bygðar á viti, heldur er það af hinu, að jeg tel ekki rjett að málið nái fram að ganga. Jeg álít, að þess síður eigi að samþykkja þetta, þar sem sjálfir flutningsmenn hafa lýst yfir því, að sumar af þessum breytingum sjeu aðeins að nafninu til. Það er þá ekki til annars en að villa mönnum sýn. Því að hvað þýðir það, að vera að halda tolli á síld, þar sem tollfrjálsa hámarkið er sett svo hátt, að fullvíst er, að tollurinn yrði ekki nema nokkrir aurar á hverja tunnu? Sjávarútvegsmenn hrópa nú hástöfum um það í báðum deildum, að þessi atvinnuvegur sje ekki annað en gustuka-atvinna. Það kemur mjer undarlega fyrir, að hv. 1. þm. G.-K. (B. K.), hinn fyrverandi fjármálaráðherra, skuli nú vilja mæla með þessari brtt. á þgskj. 800, sem þó sýnilega miða að því, að koma í veg fyrir, að nokkuð náist af tekjum í landssjóð. Mjer skilst, að það ætti að vaka fyrir okkur, að ná þó einhverjum tolli inn, en að hitt sje gersamlega tilgangslaust, að vera hjer að handfjalla tölur, er eiga að vera hið tollfrjálsa verð, sem eru svo hátt settar, að það er hámark á verði, sem fyrir vörur er gefið, og af þeirri ástæðu gefa ekki landssjóði neitt í aðra hönd. Þá er mun betra að fella það alt saman, eins og meiri hluti fjárhagsn. vill. Jeg vil geta þess, eins og komið hefir fram í öðru máli hjer, að nú er svo ástatt, að misrjetti á sjer stað milli sjávarútvegs og landbúnaðarins. Frumvarpið um hækkun á útflutningsgjaldi á sjávarafurðum var fram komið til að bæta úr þessu misrjetti. En það var felt, svo að þetta misrjetti heldur sjer enn. Það er því ekki nema eðlilegt, að það komi hjer fram tillögur eins og þær, sem hv. 1. þm. Árn. (S. S.) ber fram, er ganga í þá átt, að skapa jafnræði milli þessara atvinnugreina, með því að ljetta tollinum á landbúnaðarafurðum. Jeg tel því rjett, að hv. þm. greiddu þessari tillögu atkvæði, til þess að gæta sanngirni og rjettlætis í þessu máli. Jeg mun því gera það, enda þótt jeg sje á móti málinu í heild sinni, eða framlengingu verðhækkunartollsins, eins og nú standa sakir.