09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

36. mál, verðhækkunartollur

Flm. (Gísli Sveinsson):

Út af orðum hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) um að eigi sje ráðlegt að nema lögin úr gildi, fyr en einhverjar tekjur sjeu fundnar í skarðið, vil jeg geta þess, að þó að lögin verði athuguð í heild sinni, er ekkert því til fyrirstöðu að nema þegar þau ákvæði, er frv. hljóðar um, úr gildi. Þótt lögin verði numin úr gildi, ekki framlengd, gæti óverðskuldað ranglæti komið fram á ullinni. Ullin gæti farið fyrir 17. sept., en það er líka hugsanlegt, að hún liggi fram yfir þann tíma, og hvernig á þá að koma tollinum á rjettan stað?

Jeg sje ekki betur en að rjettmætt sje að nema ákvæðið um ullina burt nú þegar, hvort sem lögin verða framlengd eða ekki. Besta ráðið væri, að landsstjórnin athugi og gefi upplýsingar um til fjárhagsnefndar, hvort fella skuli burt eða breyta þessum lögum. En það má eigi dragast á langinn að fella burt ákvæðin um ullina, ef á annað borð á að gera það; vilji menn ekki fella þau burt, geta þeir sagt strax til. Mjer skilst líka, að menn vilji setja málið í nefnd vegna laganna í heild sinni, en telji það óþarft vegna þessa eina atriðis.

Jeg álít óþarft, að þm. Dala. (B. J.) komi með breytingartillögu við þetta frv. um, að öll lögin falli úr gildi.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hjelt, að eins mundi fara um aðrar afurðir og ullina. Framleiðendur mundu selja með tilliti til tollsins, en þegar hann fjelli af þessum tegundum, þá græddu „spekulantarnir“, en ekki framleiðendur. Þessu svara jeg svo, að þar er alls ekki sama máli að gegna. Ullarframleiðendur verða að selja þegar. En fiskinn t. d. selja menn ekki löngu áður en hann er veiddur eða þeir hafa hugmynd um, hvort þeir veiði hann. Þar er „spekulationin“ rekin svo langt, að fjarri fer eðlilegum verslunargangi. Nú er svo komið, að þessa dagana verður að skera úr, hvort tollur skuli vera á ullnni í sumar eða ekki. Orsökin til þess, að frv. þetta kom ekki fyr fram, er sú, að við flutningsmenn bjuggumst við, að það mundi koma frá öðrum, en nú þóttumst vjer ekki geta beðið lengur. Í öðru lagi hefir tíminn lent í því að finna nefndum þingsins stað og stund, og því enginn starfstími verið fyrir þær. Flutningsmenn verða því alls ekki ásakaðir fyrir, að það hafi komið ofseint. Málið gæti nú alls ekki verið komið úr nefnd. Jeg sje ekki, að þörf sje að fjölyrða frekar um málið. Við flutningsmenn sjáum þess enga þörf að setja málið í nefnd, og teljum það gera málinu ógagn, tefja fyrir því að eins.