03.08.1917
Efri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (2566)

36. mál, verðhækkunartollur

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Þetta frv. hefir gengið í gegnum sannkallaðan hreinsunareld í hv. neðri deild. Jeg hefi heyrt sagt, að 50 ræður hafi verið fluttar um það þar. En þó að jeg játi, að það sje tæplega svo mikilsvert, að ástæða sje til að ræða svo mikið um það, þá hygg jeg, að sjálfsagt sje að lofa því að ná að ganga fram. Landssjóður missir engar tekjur við það, því að telja má víst, að engin ull verði flutt úr landi fyr en eftir 16. september, þegar verðhækkunartollslögin verða numin úr gildi. Það er þess vegna öldungis ástæðulaust að fella frv. Enda kom það skýrt fram við umræðurnar í hv. neðri deild, og jeg get þess einnig í nefndaráliti mínu, að tilgangurinn með frv. er sá einn, að ljetta lítilsháttar af bændum. Frumvarpið yrði til þess, að kaupmennirnir gætu ekki tekið verðhækkunartollinn til greina, þegar þeir ákvæðu verðið á ullinni. Fje það, sem hjer er um að ræða, er ekki mikið. Mun láta nærri 7000 krónum. Og jeg sje ekki annað en að það sje nokkuð meinlítið, þó að bændur fengju þennan litla hag, sem annars rynni í vasa kaupmanna.

Hv. framsögumaður meiri hluta nefndarinnar (H. St.) mintist á það, að misrjetti mætti ekki eiga sjer stað í afskiftum þingsins af atvinnuvegum landsmanna. Jeg er honum fyllilega samdóma um þetta, og þykist hafa sýnt það frá því er jeg kom fyrst á þing, að jeg hafi leitast við að taka sem jafnast tillit til beggja aðalatvinnuvega landsins. Enda væri þá mjög illa farið, ef þess væri ekki vandlega gætt. Og jeg barðist einmitt, samkvæmt þessum skoðunum mínum, á móti verðhækkunartollslögunum, þegar þau komu fyrst fyrir þingið, vegna þess, að jeg tel það algerlega rangt að leggja skatta á framleiðsluna sjálfa. Það er sama sem að lama sjálfar líftaugar þjóðarinnar. En ef atvinnuvegirnir fá að blómgast, þá er hins vegar mjög hægt að ná sjer niðri, þar sem um einhvern verulegan gróða er að ræða.

Að því er snertir tollinn af fiski þá eru kaupmennirnir nú búnir að kaupa allan fisk og hafa þegar tekið verðhækkunartollinn til greina, svo að ástæðulaust er að nema lögin úr gildi að því er fiskinn snertir, sjerstaklega þar sem þeir hafa grætt feiknalega mikið. Þeim er því enginn órjettur ger, og sjávarútvegurinn stendur nákvæmlega jafnóhöllum fæti, þó að þetta frv. verði samþykt.