04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (2603)

44. mál, stofnun stýrimannaskóla á Ísafirði

Matthías Ólafsson:

Jeg vil fyrst mótmæla þeim misskilningi, að fyrir mjer hafi eingöngu vakað að sjá með þessari skólastofnun fyrir undirbúningsmentun skipstjóra á smærri skip. Hitt hefir meðal annars vakað fyrir mjer, að kröfur til þeirra væru auknar.

(M. P.: Þá þarf að breyta lögunum). Vitanlega. En fyrst þyrfti að sjá fyrir, að sjómenn hefðu tækifæri til að fullnægja skyldunum, sem væru lagðar þeim á herðar. Menn, sem hefðu rjett til að fara með 12—30 smálesta skip, ættu að hafa tekið minna stýrimannaprófið. 12 smálesta skip er nú oft meira virði en skútur frá 30—40 smál. voru áður. Það má ekki eingöngu miða við stærðina, þó að svo hafi verið gert, til að hafa einhver föst takmörk.

Það er öllum kunnugt, að kenslan er yfirleitt ekki eins góð í stórum skólum eins og litlum. Í stóru skólunum eru fleiri nemendur um hvern einstakan kennara, og bera því minna úr býtum. Jeg skal ekki segja neitt ljótt um skólann hjer. Hann er sjálfsagt góður. Frá honum hafa menn farið með ágætiseinkunn, en líka þó nokkrir með ljelegri einkunn. Jeg tel sennilegt, að hinir síðari yrðu færri, ef skólarnir yrðu fleiri. Jeg teldi heppilegast, að hjer í Reykjavík yrði fullkomnasti skólinn, en út um landið skólar fyrir skipstjóraefni, sem mættu stýra skipum hjer við land, botnvörpungum og öðrum fiskiskipum.

Hv. frsm. (M. P.) sagði, að vel gæti komið til mála, að skólinn yrði settur annarsstaðar, ef hann yrði settur. Undarlegt þætti mjer, ef ætti að hjálpa þeim, sem hefði þrengri skó, en fyndi ekki til þess, fyr en hinum, sem kvartaði undan skóþrengslum. Það væri hlægilegt, ef fyrsti skólinn væri settur annarsstaðar en þar, sem fyrst er kvartað.