16.07.1917
Neðri deild: 11. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (2701)

59. mál, mótorvélstjóraskóli

Flm. (Matthías Ólafsson):

Nokkrum orðum vil jeg bæta við það, sem í frv. og ástæðunum fyrir því stendur.

Öllum er kunnugt, að næstum öll smærri útgerð hefir á síðustu árum breyst í mótorbátaútgerð. Það hefir mikla þýðingu fyrir mótorbátaútgerðina, að þeir, sem stjórna vjelunum, sjeu starfa sínum vaxnir. En mótorbátarnir hafa þotið upp á svo skömmum tíma, að hörgull hefir orðið á mönnum, sem næga þekkingu hafa til að stjórna vjelunum. En það er útveginum hin mesta nauðsyn að hafa vel hæfa menn. Þar sem nú þing og stjórn leggur kvaðir og skyldur á þennan útveg, er ekki nema sanngjarnt, að landsstjórnin sjái til, að því leyti sem í hennar valdi stendur, að útvegurinn geti fullnægt þeim kvöðum, og sjái vel fyrir sjermentun þeirra, sem við hann eru riðnir.

Jeg veit, að ýmsir munu telja nægilegt, að einn skóli væri settur í Rvík. Ef það er rjett, að hægt sje að komast af með einn skipstjóraskóla á landinu, kann það að vera jafnrjett, að ekki þurfi nema einn mótorvjelstjóraskóla. Að mínu áliti er hvortveggja rangt, og ef ilt er að komast af með einn skipstjóraskóla, er þó öllu verra að komast af með einn vjelstjóraskóla.

Frv. þetta er fram komið fyrir áskoranir manna af öllu landinu. Fiskiþingið hefir og fallist á það. Vitanlega er tilsögnin, sem nú er veitt, mjög ófullnægjandi. Kenslan má ekki vera skemur en 6—8 mánuði.

Ekki verður hjá því komist, að þetta kosti landssjóð töluvert fje; mótorbátaútgerðin gefur líka töluvert í aðra hönd. Það má ekki fara með hana eins og útigangsklár, leggja á hana þungar byrðar. og reka hana svo út á gaddinn. Jeg vona, a. m. k. að þeir, sem búa við sjávarsíðuna, sjái nauðsynina.

Óvíst er, að menn haldi áfram að leggja fje í þennan útveg, ef ekki fást góðir menn til að stjórna vjelunum. Ábyrgðargjöldin verða líka því lægri, sem starfsfólkið er stöðu sinni betur vaxið. Tryggingin á eignum og lífi manna eykst við það, að fengnir sjeu vel hæfir vjelstjórar, eigi síður en skipstjórar. Þá verður atvinnuvegurinn svo tryggur sem hægt er; fulltryggur verður hann aldrei; við óblíða náttúru eiga sjómennirnir að berjast. En það ætti ekki að vera úr vegi að búa þá eins vel undir baráttuna og kleift er.

Jeg vona, að málið fái að ganga til 2. umr. og verði vísað til sjávarútvegsnefndar.