31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (2704)

59. mál, mótorvélstjóraskóli

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Sjávarútvegsnefndin hefir athugað frv. á þgskj. 63, og hefir komist að þeirri niðurstöðu að leggja til, að það verði gert að lögum með lítilfjörlegum breytingum, sem jeg vil nú fara nokkrum orðum um. Fyrst, að aftan við 2. gr. frv. bætist „jafnframt að veita þeim, er þess óska, þá kunnáttu, sem áskilin er í lögum nr. 42, 3. nóv. 1915, til þess að hafa skipstjórn á 12—30 lesta skipum.“ Nefndin áleit líka bera nauðsyn til að auka þekkingu þeirra, er hafa eiga skipstjórn á hendi á smáskipum, og hún telur heppilegra að setja þessa kenslu á stofn í sambandi við skóla þessa, er koma á á stofn. Námstími slíkra manna er þess utan stuttur, og tekur naumast að fara til Reykjavíkur, og auk þess telur hún, að það mundi trufla fyrir fullkominni kenslu í stýrimannafræði. Nefndin álítur því, að þetta geti verið þannig fyrst um sinn, þar til stýrimannaskólar verða settir á stofn annarsstaðar; það geti hjálpað um stundarsakir.

Þá hefir nefndinni virst fara betur á því, að reglugerðina skuli stjórn Fiskifjelags Íslands semja og stjórnarráð Íslands staðfesta. Fiskifjelagið ætti að vera kunnugra. Það hefir í sinni þjónustu mann, sem er ágætlega að sjer í þessum efnum. Hins vegar telur nefndin sjálfsagt,að stjórnarráðið staðfesti reglugerðina.

Þá er 3. brtt., sem ætti að gera það talsvert líklegra, að frv. nái fram að ganga, að nefndin ræður til, að þetta sje ekki gert nú þegar, heldur svo fljótt sem verða má, að lokinni heimsstyrjöldinni. Nefndin sá, að þetta mundi hafa nokkurn kostnað í för með sjer og vildi, að því væri frestað, þar til lokið væri hinum erfiðustu afleiðingum heimsófriðarins.

Af þessu hefir nefndin ekki sjeð annað fært en að ákveða, að Fiskifjelagi Íslands skuli veittar alt að 2000 kr. á ári til þess að fjölga námsskeiðum þeim um hirðing og meðferð mótora, er það hefir haldið undanfarin ár. Það hefir haft til þess einn mann, og því hafa þau bæði orðið stutt á hverjum stað og ekki á mörgum stöðum. Þörfin er orðin svo brýn, að ekki er hægt að bíða þangað til þessum skólum er komið á fót. Námsskeið þessi verða að halda áfram.

Nefndin sá ekkert undanfæri að fjölga og fullkomna námsskeið þau, sem Fiskifjelag Íslands hefir gengist fyrir að haldin væru víðs vegar um landið, með styrk af landsfje. Um það, hvernig frv. er til orðið, er það að segja, að fjórðungsþingin öll, þau er standa og starfa í sambandi við Fiskifjelag Íslands, hafa lýst yfir því, að þau telji bráðnauðsynlegt að auka kenslu í mótorvjelfræði. Jeg tel víst, að málið fái svo góðar undirtektir, að það geti gengið orðalaust gegnum deildina. Þó skal á það minst, að í 2. gr. stendur, að tilgangur skólanna sje sá að veita þá þekkingu, sem telja má nauðsynlega til þess að hafa á hendi vjelstjórn á mótorskipum. Þarna er ekki tekið fram, hverjar námsgreinar skuli kendar. En það er tekið fram í 3. grein, að það ákvæði skuli standa í reglugerð, sem Fiskifjelag Íslands semur og stjórnarráðið samþykkir. Nefndin hefir gert þá breytingu við þessa grein, að hún leggur til, að Fiskifjelagið semji reglugerðina; telur þá trygt, að þeir menn fjalli um skólana, sem mesta þekkingu hafa á kröfum þeim, sem til skólanna verður að gera. — Það liggur í hlutarins eðli, að ekki er hægt að ætlast til, að slíkar stofnanir sjeu kostaðar af öðrum en landssjóði. Á það mætti ef til vill benda, að mönnum þeim, sem læra eiga á skólum þessum, og oftast nær hafa allvel launaða atvinnu, væri ekki ofvaxið að borga eitthvert skólagjald. En jeg fyrir mitt leyti er því mótfallinn, og nefndin hefir ekki fundið neina ástæðu til að fara fram á það.

Í sambandi við þetta frv. er annað frv., sem er því náskylt, en það kemur til umræðu á eftir, og ætla jeg þá að minnast á það, þegar þar að kemur. En jeg vona, að deildin sýni frumvörpum þessum allan sóma og fallist á nauðsynina til að koma þeim í framkvæmd.