14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (2809)

115. mál, tollalög fyrir Ísland

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg flutti þetta frv. meðal annars til að minna þingið á gömul loforð, sem það hefir gefið í þessu máli.

Þegar sykurtollurinn var hækkaður árið 1905, þá var það látið heita svo, að það væri gert einungis til bráðabirgða, og að því yrði kipt í lag aftur eftir 2 ár. En loforðin hafa gleymst svo rækilega, að síðan hefir ekkert verið gert.

Því verður ekki mótmælt, að þessi skattur kemur langharðast niður á þurrabúðarmönnum og kaupstaðarfólki, og þetta var líka játað á þinginu 1905, en tollurinn var þá rjettlættur með því, að þörfin kallaði svo að, að brýn nauðsyn væri á að lögleiða hann og ekki væri tími til að koma með aðra betri leið út úr vandræðunum. Á sjálfu þinginu 1905 var svo mikil óánægja með tollinn, að jafnvel

meiri hlutinn, sem þá vildi lögleiða tollinn, sagði, að ekki kæmi til mála að láta hann gilda lengur en út það fjárhagstímabil, en þrátt fyrir öll þessi fögru ummæli hefir tollurinn nú staðið óbreyttur til þessa. Alþingi 1905 játaði líka, að tekjuskattslögin væru þá orðin úrelt. Samt hafa þau lög verið í gildi fram á þennan dag, og hefir þó síðan alt breyst um hag manna og órjettmæti þessara laga aukist. Nú ber það við, að menn hafa fleiri hundruð þúsunda króna tekjur af atvinnu sinni, t. d. sjávarútgerð, og nokkuð græða stórbændur einnig á búum sínum, en af þessum atvinnugróða greiða menn engan tekjuskatt í landssjóð. Jeg hygg nú, að tíminn sje kominn til þess að ráða bót á öllu þessu misrjetti. Þótt þetta frv. nái ekki nú fram að ganga, þá hefir það þó samt sína þýðingu. Menn hafa vaknað til umhugsunar um málið, og sjest það á nál. á þgskj. 411, því að nefndin játar þar, að tollurinn sje órjettmætur, þótt hún af öðrum ástæðum sjái sjer ekki fært að fella hann niður að þessu sinni. Jeg skal játa það, að nefndin hefir nokkuð til síns máls, og get jeg því fremur viðurkent það, sem mjer finst anda út úr nál., og einkum ræðu hv. frsm. (H. K.), að tollinn eigi að lækka eða jafnvel afnema með öllu, svo að okkur ber í raun og veru ekki mikið á milli, en hins vegar hefði jeg kosið, að nefndin hefði tekið ákveðnari afstöðu til málsins.

Hjer var í gær til umræðu annað frv. um verðhækkunartoll af útfluttum afurðum. Sumum þótti, sem sá tollur væri ekki rjettmætur. En hvað segja þá þeir sömu menn um þennan toll? Þykir þeim hann vera rjettmætari? Það er þó tæplega hægt að segja annað en að þeir, sem eitthvað framleiða, sjeu betur settir en hinir, sem enga framleiðslu hafa. Þeir, sem greiða verðhækkunartollinn, hafa þó flestir eitthvað milli handanna, en sumir, sem verða að borga sykurtollinn, eiga ekki einu sinni utan á sig garmana, og ganga ef til vill berfættir í skónum.

Því verður ekki neitað með nokkrum rökum, að skattalöggjöf landsins er mjög órjettlát og að oflítið er gert til að bæta úr því misrjetti, sem hún skapar.

Nefndin víkur að því, hve miklar tekjur landssjóður missi við afnám sykurtollsins, en einmitt þetta sýnir, hve mikið gjald þetta er, sem tekið er á þennan rangláta hátt.

Jeg hafði búist við því, að hv. fjárhagsnefnd mundi koma með frumvarp um breyting á tekjuskattslögunum. Jeg átti tal um það í þingbyrjun við nokkra þingmenn, að nauðsynlegt væri að breyta þessum lögum, og sagði einu þingmaður mjer það þá, að fjárhagsnefnd mundi ætla sjer að gera það, Og vonandi hefir hún eitthvað á prjónunum, þótt henni hafi ekki unnist tími til að koma fram með það enn þá.