16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (2837)

132. mál, kaup í landaurum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg hefi í raun og veru engu við nál. á þgskj. 442 að bæta. Álit nefndarinnar er, að þetta mál, eins og það nú liggur fyrir, sje ekki nógu vel undirbúið, en hún vill, að það fái rækilega athugun og afgreiða það því til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá. Það er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að athuga innan skamms nákvæmlega launamál þessa lands enn á ný, því að þótt nefndir hafi um þau fjallað og margt hafi verið um þau skrifað, þá eru þau ekki svo vel undirbúin, sem nauðsynlegt er. Fyrir sitt leyti vill nefndin stuðla að því, að þetta mál verði athugað rækilega. Jeg fæ ekki betur sjeð en að hv. flm. (B.J.) geti vel unað því, að málið sje afgreitt þannig, því að því er allur sómi sýndur, og best fer á því, að það fylgi tala um launamálabálkinum, er hann verður endurskoðaður. Jeg þykist tala , að honum (B.J.) sje ljóst, að þetta mál er ekki svo undirbúið, að það geti náð fram að ganga nú.

Jeg skal geta þess, að þegar gert er ráð fyrir að ákveða laun eftir verðlagsskrá, er ekki hægt að hlíta við ákvæði slíkrar verðlagsskrár sem nú gildir. Ef launin á að ákveða í landaurum, verður það að vera bygt á því, að nauðsynjar manna sjeu teknar til greina, en eins og kunnugt er þá fer fjarri því, að sú verðlagsskrá, er nú gildir, taki tillit til þeirra. Það er t. d. ekki hægt að telja til lífsnauðsynja manna hespugarn og eingirnissokka, tvíbands-gjaldsokka og eingirnispeysur, nje heldur er nú um greiðslur að tala í vaðmáli og einskeftu, hákarli og hvallýsi, kýrhúðum og hrossskinnum, fuglafiðri og fjallagrösum. Dagsverk og lambsfóður eru líka svo fátíður gjaldeyrir, að ekki er hægt að gera þau að gjaldmiðli. Slík verðlagsskrá, er nothæf væri til launaákvörðunar, yrði að hljóða um helstu nauðsynjar manna, hinar algengustu, útlendar og innlendar, til viðurværis og aðhlynningar, svo sem kornmat, eldsneyti og jafnvel húsaleigu o, fl. Það er því hvergi fullnægjandi að hafa eingöngu verðlagsskrá þá, er nú gildir, til hliðsjónar, því að með henni næst ekki það rjettlæti, sem til er ætlast.

Jeg vona, að stjórnin taki þetta til greina og athugi það ekki ver en aðrar hliðar þessa mikla máls.