14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (2855)

136. mál, aðflutningsbann á áfengi

Matthías Ólafsson:

Jeg er enginn ofstækismaður, í þessu máli, og get vel talað með fullri rósemi, og ætla að eins að tala um dagskrána. (Forseti: Að eins um það, hvernig dagskrárnar eru upp bornar). Það er einkennilegt að mega ekki gera grein fyrir atkvæði sínu. Þetta er svo harður úrskurður, að illa er þolandi. (E. J.: Gat þingmaðurinn ekki beðið um orðið?). Þjóðin vissi ekkert, hvernig lögin yrðu, þegar hún samþ. aðflutningsbannið, og er því hæpið að halda því fram, að hún hefði samþ. lögin um aðflutningsbann. Að í frv. því, sem hjer liggur fyrir, sje farið fram á afnám bannlaganna, er fullkomin fjarstæða. Að vísu má kalla hverja breytingu, sem eitthvað rýmkar um lög, hver sem þau eru, afnám þeirra, en það er þá aldrei nema „partielt“ afnám, og þá erum vjer einnig búnir, eftir þeim skilningi, að afnema bannlögin með undantekningunni til konsúlanna og læknanna.