17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í C-deild Alþingistíðinda. (3020)

119. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Magnús Torfason:

Jeg vil að eins leyfa mjer að þakka háttv. nefndum, bæði sjávarútvegsnefnd og fjárveitinganefnd, fyrir góðar undirtektir, og jafnframt vil jeg, að gefnu tilefni, lýsa yfir því, að það var aldrei hugsun manna, að ráðist yrði í fyrirtæki þetta fyr en að ófriðnum loknum.

Jeg þykist þess fullviss, að landssjóður muni bráðlega fá bætt aftur fje það, sem hann leggur til, þar sem aukast munu að stórum mun bæði atvinnu- og verslunarskilyrði fyrir hafnarbótina. Og jeg er ekki í neinum vafa um það, að þessi háttv. deild mun á sínum tíma hafa ánægju af því að hafa samþykt frv. þetta.