30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í C-deild Alþingistíðinda. (3027)

119. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Sjávarútvegsnefnd hefir haft mál þetta til athugunar, og eftir að hún hafði rannsakað það, sá hún ekki ástæðu til annars en að það væri samþykt, eins og það kom frá háttv. Ed.

Það kom til orða í nefndinni, hvort fjárupphæð sú, sem landssjóði er ætlað að leggja fram, mundi ekki vera ofhá. En við nánari íhugun komst hún að þeirri niðurstöðu, að svo mundi ekki vera, með því að hafnarbæturnar og landvinningin, sem þeim mundi verða samfara, mundi reynast meira virði en fjárupphæð þeirri næmi, er til mála gæti komið að spara.