04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í C-deild Alþingistíðinda. (3107)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Forsætisráðherra (J. M.):

Það getur verið, að í einhverju sjerstöku tilfelli, þegar þröngt hefir verið í búi landssjóðsverslunarinnar, hafi verið mælt svo fyrir, að vörur skyldu ekki afhentar öðrum en sveitarstjórnum. En það hefir aldrei verið lagt bann við því, að kaupmenn fengju að afhenda vöruna, ef sveitarstjórnir leyfðu. Það getur vel verið, að kaupmenn hafi ekki fengið pantanir sínar, en það kemur ekki í bága við það, sem jeg sagði, að stjórnin hafi aldrei við því amast, að kaupmenn afhentu vöruna.

Annars hafa engin veruleg mótmæli komið fram gegn ummælum hæstv. atvinnumálaráðh. eða meiri hluta bjargráðanefndar. Jeg treysti þessvegna því, að dagskrá hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) verði samþykt.

Jeg tel ekki nema sjálfsagt, að stjórnin og verslunarskrifst. taki tillit til þess, sem fram hefir komið í umræðunum. Stjórnin mun gera sjer far um, að alt verði sem tryggast fyrir landssjóð og kostnaðarminst fyrir sveitarstjórnirnar.