18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í C-deild Alþingistíðinda. (3114)

70. mál, einkasala landssjóðs á kolum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Hin háttv. þingdeild hefir nú hlýtt á ræðu hæstv. fjármálaráðherra (B. K.). Þótt hann telji sig ekki hafa talað fyrir munn stjórnarinnar, þá hafa menn þó getað heyrt, að hann muni ekki sem stjórnandi vilja vinna að því, að það verði gert, sem till. þessi fer fram á að gert verði. Það er þó nógur tími til stefnu fyrir stjórnina að átta sig á þessu máli þangað til 1919, og hefði hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) gott af að athuga till. þangað til, ef honum endist stjórnaraldur; jeg er viss um, að hann mundi eftir þann umhugsunartíma standa betur fyrir máli sínu en hann hefir gert nú. Það er slæmt, að við skulum ekki fá heyrt ummæli allrar stjórnarinnar, svo að við getum heyrt, hvernig hinir ráðherrarnir líta á málið. Þótt vjer höfum heyrt álit hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), þá er ekki víst, að hann verði í meiri hluta í stjórninni. Það verður því ekki tekin afstaða eftir áliti hans eins nú. Annars furðaði mig stórlega á ræðu hans; jeg hugði, að hann mundi gera grein fyrir því, hversvegna stjórnin hefði vanrækt að gera í þessu máli það, sem margir höfðu ætlast til af henni. Mjer fanst eins og hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) talaði frá sjónarmiði sinna gömlu stjetttarbræðra, kaupmannanna (Fjármálaráðh.: Nei, frá sjónarmiði útgerðarmanna). Kaupmanna fyrst, og síðan frá sjónarmiði nokkurra útgerðarmanna, og kom þó kaupmaðurinn altaf fram í orðum hans.

Hann taldi öðru máli að gegna með steinolíueinokun en kolaeinokun, því að samkepni ætti sjer stað í kolaversluninni, en ekki í steinolíuversluninni.

Þetta er nú ekki rjett. Það gegnir alveg sama máli með þessar tvær vörutegundir. Það er að verða einokun á þeim báðum sem stendur, þótt böndin sjeu ef til vill fastar reyrð um steinolíuverslunina. Hann benti á, að samkepni hefði verið fyrir stríðið á kolaversluninni. Það hefir enginn mælt á móti því, en það er heldur engum bannað að kaupa steinolíu frá útlöndum, ef hann getur. Því verður ekki neitað, að nú á síðustu tímum er að komast hjer á samskonar einokun á kolum, þótt enn sje ef til vill örðugra fyrir þá, sem vilja, að ná sjer í steinolíu.

Hann sagði, að landsmenn mundu vera á móti kolaeinokun. Hví þá ekki líka á móti steinolíueinokun? Og þó hefir stjórnin sjálf lagt fyrir þingið slíkt einkasölufrv. Nei, rök hans voru ekki staðgóð. Hjer er ekki um neitt annað að tala en það, hvort nauðsyn sje á að koma hjer upp landseinkasölu á þessum vörutegundum. Það nær ekki neinni átt að bera slíka einkasölu saman við hina gömlu einokun, þegar verslunin var seld útlendum mönnum á leigu, til þess að þeir gætu sogið út landsmenn. Hjer er ekki að ræða um annað en það, að landið hlaupi undir baggann með aðöflun varanna, og hafi dálítinn hagnað af því um leið. Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) komst svo að orði, að tilgangurinn með þessari tillögu gæti ekki verið annar en sá, að við vildum ná inn sem mestum skatti af þessum vörutegundum. Ef svo er um kolin, þá gildir einnig hið sama um steinolíueinokunina, sem stjórnin vill koma á, og falla þá ummælin aftur á hæstv. ráðherrann (B. K.). Annars mætti í þessu sambandi benda honum á, að engin ástæða er til að búast við því, að stjórnin komist að lakari kaupum en einstakir menn, og vilji hæstv. ráðherrann (B. K.) halda því fram, eins og mjer fanst vera efst í honum áðan, þá þykir mjer hann bera fremur lítið traust til stjórnarinnar. Hæstv. fjármálaráðherra (B.K ) komst svo að orði, að einstakir menn hefðu skip, sem gætu flutt þeim kolin, þeim að kostnaðarlausu. Þetta er nú, vægast sagt, nokkuð fullyrðingakent. Fyrst og fremst er það ólíklegt að skipakostir landssjóðs sje ekki eins góður og einstakra manna, og í öðru lagi, væri svo, hví mætti þá ekki leigja þessi ódýru skip til kolaflutninga fyrir landið?

Þá talaði hæstv. fjármálaráðherra (B.K.) um það, að þetta mál hefði ekki verið rætt á þingmálafundum. Það mun satt vera, að málið hafi verið fremur lítið rætt. En ef þm. mættu ekki flytja á þingi önnur mál en þau, sem rædd hefðu verið á þingmálafundum, þá yrði ekki mikið um störf á þinginu, og víst væri það harla undarleg pólitík. Hvar eru annars þingmálafundargerðir um einkasölu landssjóðs á steinolíu?

Það mun satt vera, að nokkrir framleiðendur, þ. e. a. s. útgerðarmennirnir, munu vera á móti kolaeinokun. En, satt að segja, legg jeg ekki mikið upp úr því að svo stöddu. Það er einmitt á þeim, sem aðalábyrgðin liggur fyrir það, að við erum nú kolalausir. Það er getuleysi þeirra eða fyrirhyggjuleysi að kenna. Þeir höfðu reynt, nokkrir þeirra, að koma allri kolaversluninni í sínar hendur, en þegar nokkuð reyndi á, þá fer alt um þverbak. Menn treystu þeim, en þeir brugðust.

Hæstv. fjármálaráðherra (B.K.) stakk upp á því, að landið ræki fremur frjálsa kolaverslun en einkasölu. Jeg get ekki verið á sama máli, og mjer er óhætt að fullyrða, að fjárhagsnefndin er ekki á sama máli og hæstv. ráðh. (B.K.). Hún lítur á bæði kolaeinkasöluna og steinolíueinkasöluna sem tryggingarráðstöfun, en hún fellst aldrei á það, að landið fari að keppa við fjelög, eins og t. d. Steinolíufjelagið, sem ekki myndi kynoka sjer við að skaðast sjálft árum saman, til þess að útiloka þá samkepni og koma verslun landsins á knje. Fjárhagsnefndin leggur það aldrei til, að landið leggi út í þá samkepni.