18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í C-deild Alþingistíðinda. (3119)

70. mál, einkasala landssjóðs á kolum

Bjarni Jónsson:

Jeg er alveg samþykkur hv. frsm. (G. Sv.) um það, að ekki sje ráðlegt að byrja þegar einkasölu á öðru en steinolíu, og það af þeirri ástæðu, að eitt einstakt fjelag hefir þegar náð einokun á þeirri vörutegund. Fjelag þetta hefir jafnvel leyft sjer að senda landsstjórninni uppkast að samningi, þar sem hún skuldbindi sig til að versla ekki við annað fjelag. Þegar svona er komið, þykir mjer skörin vera farin að færast upp á bekkinn, og er nauðsyn að vernda land og þjóð gegn slíkum yfirgangi.

Annars veit jeg ekki enn, hvort rjett er að hverfa frá frjálsri verslun og taka upp einokun. Jeg vil ekki fara lengra en að ákveða, að landið taki að versla með þá vöru, þegar einokun er komin á hana. Nú á ekkert slíkt sjer stað um kolin, og jeg sje engar líkur til að það verði. Sje jeg því enga ástæðu til að ákveða nú, að landssjóður skuli taka einkasöluna að sjer. Hefði jeg því kunnað betur við, að stjórninni hefði verið falið að athuga málið, en hún ekki skylduð til að leggja fyrir þingið frv. um einkasölu. (G. Sv: Þingmaðurinn hefir ekki heyrt rök mín fyrir orðalagi tillögunnar). Hafi það verið í sömu átt og jeg tala nú, ætti að breyta orðalagi till. þannig, að stjórnin skuli rannsaka málið og láta þinginu í tje skýrslu um rannsókn sína, og svo bæri það þá fram frv. um einkasölu, ef því þætti rjett.

Hvað viðvíkur tryggingu á hag almennings, þá er almenningshagur tryggari með landssjóðsverslun heldur en einokun, eins og á steinolíu, eða verslun í höndum annara, er gera samtök um að hindra frjálsa samkepni. En með frjálsri verslun og óbundinni samkepni, er landsmönnum eins vel borgið og með einkasölu landssjóðs. Jeg ætla, að menn hugsi sjer, að landið taki ákveðið hundraðsgjald sem ágóða, tekjur fyrir landssjóð. Þegar litið er á tekjufrumvörp síðustu þinga, vörutoll, útflutningstoll, verðhækkunartoll, tollfrumvarp það, er hjer var á ferðinni í dag, o. s. frv., þá geri jeg ráð fyrir, að hagur almennings sje ekki betur trygður með þeirri verslun, er landssjóður ræður, því að jeg geri ráð fyrir, að þá er landssjóður væri kominn í öngþveiti, og fátækt stæði fyrir dyrum, mundi hann hækka ágóðann af verslun sinni, taka 20% fyrir 10%, og þá næst 30% o.s. frv. Svo hygg jeg að yrði talað og gert, lagt til og samþykt um hverja þá verslun, er landssjóður hefði, til að fylla sjóðþurð, ef til kæmi, og yrði þá hagur almennings ekki betur trygður en með frjálsri samkepni.

Vildi jeg því láta hjer við sitja, og ákveða ekki um fleiri vörutegundir, en sjá hversu tekst það sem komið er. Reynslan mun sýna það. Ef einokun skyldi síðar komast á kol, er sjálfsagt, að landssjóður neyti hins eina vopns, og taki söluna að sjer.