30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í C-deild Alþingistíðinda. (3168)

53. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það var alger misskilningur hjá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að senda þurfi með skjöl langar leiðir til að greiða stimpilgjald af þeim. Skjöl eru ekki stimpilskyld fyr en þau eru þinglesin, og öðlast fullt gildi strax við útgáfu þeirra, án nokkurrar stimplunar.

Hvað snertir ræðu hæstv. fjármálaráðh. (B. K.), vil jeg geta þess, að það er aðalatriðið fyrir nefndinni, að reglurnar um gjaldið sjeu einfaldar. Við því má og búast, að lög þessi verði bráðlega endurskoðuð. Viðvíkjandi orðum háttv. l. þm. S.M. (Sv. Ó.), skal þess og getið, að stjórnarráðið mun sjá um, að nægilegar birgðir af stimpilmerkjum liggi hjá sýslumönnum. Hjá þeim gætu ýmsar stofnanir, sem þurfa að nota mikið af þeim, keypt svo mikið, sem þær vilja í einu.