17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í C-deild Alþingistíðinda. (3186)

57. mál, laxveiði

Benedikt Sveinsson:

Jeg skal gera stutta grein fyrir frumvarpi því, sem hjer liggur fyrir.

Eins og vikið er að í ástæðunum fyrir frv. er það fram komið til að ráða bót á ýmsum göllum, sem nú eru á löggjöf vorri um laxveiði; og á það þá fyrst og fremst að koma í veg fyrir, að hafðar sjeu veiðiaðferðir, sem hindra, að laxinn geti gengið upp eftir ánum. Það er víða svo, að þeir menn, sem búa upp með ánum, hafa engin hlunnindi af laxveiðum, því að hinir, sem við ósana búa, sópa öllum laxinum upp. Aftur væri veiði í allri ánni, ef laxinn fengi að ganga óhindraður. Nú hafa menn aflað sjer ýmissa nýrra veiðitækja, og tekið upp nýjar aðferðir, svo að hættan á, að þeir, sem búa við ósana, sitji einir að laxinum, er orðin enn meiri en áður hefir verið. T. d. má nefna, að í Borgarfirði eru menn farnir að setja girðingar í sjó, fyrir Hvanneyrar- og Einarsnesslöndum. Þar gengur laxinn eftir tveim höfuðálum, en sjeu þeir girtir, kemst hann ekki upp í árnar. Enda hefir raunin á orðið, að síðan girðingarnar voru settar hefir engin veiði, að heita má, verið í ánum upp af, Hvítá, Norðurá, Þverá, Grímsá, Flókadalsá og Reykjadalsá. Í öllum þessum ám er nokkur veiði, og sumum mjög mikil, ef laxinn er ekki drepinn við ósinn. Svipað mætti segja um Laxá í Þingeyjarsýslu; þar er mestur laxinn veiddur við ósinn. Fyrir nokkrum árum var Englendingum leyfð þar stangaveiði, og veiðunum við ósinn hætt; þá skifti alveg um, og laxinn gekk langt inn í heiðalæki.

Ef lagt er bann við ofmikilli veiði við ósana, þá mun laxinum fjölga og veiðin aukast síðar meir. Þótt veiðin rýrnaði í bráðina fyrir þeim, er mest veiða nú, þá yrði það þeim sem öðrum gagn, en ekki skaði, síðar, þar sem laxinn mundi mjög aukast í ánum og viðkoman verða miklu meiri en áður.

Í sambandi við þetta má nefna ákvæði frv. um laxastiga í ám, þar sem fossar hamla göngu þeirra. Ef slíkur stigi væri d settur í Brúafoss í Laxá í Þingeyjarsýslu, þá mundi laxinn ganga alla leið upp í Mývatn; og upp í Þingvallavatn ef stigar væru settir í Sogsfossana.

Hjer í Elliðaánum hefir laxveiði stórum aukist síðan stangaveiði ein var leyfð þar.

Nú veiðist miklu meira heldur en fyr á tímum, þegar veitt var á víxl úr kvíslum og drepið alt, sem fanst í farveginum. Er þetta eitt dæmi þess, hve mikið mætti auka laxveiði, ef hagkvæm veiðiaðferð væri notuð.

Frumvarp þetta er eigi samið með nægum undirbúningi, og eru á því ýmsir gallar. Enginn lögfræðingur hefir um það fjallað. Það er mjög víðtækt, og margvíslega hagar til á ýmsum stöðum í landinu. Þyrfti því að athuga frumvarpið vel. Sjálfur gæti jeg bent á suma gallana. T. d. eru ákvæðin um veiðilagnir og laxveiðistjórnirnar ófullnægjandi. En jeg hygg, að þessu mætti koma fyrir á viðhlítandi hátt, ef frv. væri sett í nefnd. Er það tillaga að því sje vísað til sjávarútvegsnefndar. Hjer í þinginu eru laxveiðibændur og ýmsir aðrir, sem þekkja vel til. Þá menn gæti nefndin fengið á fund með sjer, og borið undir þá einstök atriði. — Væri vel, að nefndin ynni frumvarpinu sem flestar bætur, þótt mjer þyki vafasamt, að gengið verði frá því til hlítar á þessu þingi. En málið er svo mikils vert, að þörf er á, að unnið sje að góðum úrslitum þess, svo fljótt sem verða má.