17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í C-deild Alþingistíðinda. (3189)

57. mál, laxveiði

Pjetur Ottesen:

Jeg skal vera mjög stuttorður. Jeg játa það, að jeg þekki ekki vel til með laxveiði, þó að hún sje mikil í mínu kjördæmi, en mun leita mjer frekari upplýsinga þar að lútandi. Þm. N.-Þ. (B. Sv.) talaði um, að girðingar í sjó hjá Hvanneyri og Einarsnesi hefðu stórspilt laxveiði í Hvítá og þeim ám, er í hana renna, og nefndi hann í því sambandi Grímsá og. Reykjadalsá. Um þetta hefi jeg ekki heyrt svo mikið talað þar efra, og held, að það sje að minsta kosti mjög orðum aukið. Hvað því viðvíkur, að lax sje nú hættur að ganga í Grímsá og Reykjadalsá, eða gangi nú minna í þessar ár en áður var, þá liggja alt aðrar ástæður til þess, sem sje þær, að í mynnum ánna hafa myndast eyrar, sem gera laxinum örðugra fyrir með að ganga upp í þær. Að minsta kosti er þessu þannig varið með Grímsá. Jeg er þessu vel kunnugur, vegna jarðamats, sem jeg er við riðinn þar upp frá. Enda má hver vita, að Hvítá er svo mikið vatnsfall, að naumast er hægt að stöðva laxgöngu í henni.

Viðvíkjandi þeirri breytingu á veiðitímanum, að veiði í net megi ekki byrja fyr en 15. júní, skal þess getið, að uppi í Borgarfirði hefir veiðitíminn hingað til byrjað 20. maí. Ef veiðitíminn yrði fluttur þetta aftur, myndu þeir, sem búa við árósana, verða mjög hart úti. Megnið af laxinum væri gengið hjá þegar byrja mætti að veiða, því að við árósana er alls ekki hægt að koma við stangaveiði. — Mjer virðist frv. sem sagt athugavert, og nauðsynlegt, að það sje gaumgæfilega athugað.