17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í C-deild Alþingistíðinda. (3190)

57. mál, laxveiði

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Meðflm. minn (B. Sv.) tilgreindi helstu ástæðurnar fyrir frv. Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) þótti ekki gerð nægileg grein fyrir frv. í greinargerðinni sem fylgir því, og kvað nærri stappa broti á þingsköpum. Jeg veit ekki, hvort til er nein regla um, hve ítarlega skuli farið út í þá greinargerð.

Það, sem kom okkur til að flytja frv., er það, hvernig veiði er misbrúkuð í mörgum ám. Fyrir okkur var það ekki aðalatriðið að tryggja þeim meiri veiði, sem búa ofar við ár, heldur hitt, að fyrirbyggja, að laxveiði gengi til þurðar. En nú eru horfur á því, að svo verði. Öll tæki, sem menn þekkja, eru notuð, leyfileg og jafnvel óleyfileg. En laxveiði er svo stór tekjugrein, að hjer þarf að hafa vit fyrir þeim, sem ekki sjá fram í tímann.

Eftir því, sem jeg veit best, er það mjög hættulegt, að veiðin byrji snemma. Laxinn heldur sjer nokkra stund við ósana, meðan hann er að venjast ferska vatninu. Það þarf því að fyrirbyggja, að hann sje þá tekinn mestallur af þeim, sem við ósana búa.

Tíminn er naumur, og jeg skal ekki orðlengja þetta frekar. En til þess að menn sjái, hve þýðingarmikil tekjugrein laxveiði getur verið, skal jeg geta þess, að á Íslandi veiddist um aldamótin lax fyrir rúmar 7 miljónir kr.