13.09.1917
Efri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í C-deild Alþingistíðinda. (3249)

140. mál, verðlag á vörum

Eggert Pálsson:

Það er rjett, sem tekið hefir verið fram, að hið nýja í frv. þessu er fólgið í 2. gr. Þar er sem sje farið fram á, að landsstjórnin geti undanskilið þær vörur ákvæði þessara laga, sem útflutningsbann er nú eða kann að verða lagt á. Þetta er aðalatriðið, sem fyrir mörgum vakir, og óánægju hefir valdið, að verðlag hefir verið lagt á nokkrar innlendar vörutegundir, og það vörutegundir, sem bannaður er útflutningur á.

Þegar bannaður var útflutningur á smjöri, þá taldi jeg þá ráðstöfun eðlilega og reyndi að sannfæra menn um, að nauðsyn bæri til að tryggja landinu feitmeti, er aðflutningur á því var orðinn erfiður. En jeg þóttist líka fullviss þess, að eigi mundi sett hámarksverð á smjörið, um leið og bannað var að flytja það út úr landinu. Það fanst mjer að höggva og leggja á báðar hendur til framleiðenda þessara vörutegundar. Hámarksverðið er í alla staði órjettlátt, sjerstaklega þegar þess er gætt, hve framleiðslan varð afardýr á Suðurlandi síðastliðið ár, þar sem löður ónýttust frá gagni, en vinnan við heyskapinn var aftur á móti mjög dýr. Mönnum kemur því verðlagsákvæðið ærið óþægilega fyrir, svo að sumir verða bæði hissa og reiðir. Og þessi óánægja fór vaxandi, er fram í sótti, er það kom í ljós, að aðflutt smjörlíki, nálega óætt, var selt fyrir því nær sama verð og smjör. Enn fremur jókst á óánægjuna, er til innlendra vöruskifta kom. Það var gömul venja, að menn skiftust á vörum á Suðurlandi, landvöru og sjávarvöru. Þessi vöruskiftaverslun var reyndar farin að minka. En það færðist aftur líf í hana. Þá sýndi það sig, að menn voru reiðubúnir að skifta á einni vætt af harðfiski gegn 2 smjörfjórðungum, enda þótt harðfisksvættin kostaði hins vegar gegn peningum 50—60 kr., eins og auglýsingar í blöðunum sýna. Borið saman við fiskverðið hefði því verðið á smjörinu átt að vera fast að 3 krónur. En í þess stað hefir verðlagsnefnd sett það að eins á kr. 1,50. Þessi ójöfnuður, er sveitamönnum fanst þeir vera beittir, hafði mikil áhrif, sem urðu undirrót þess, að þetta nýmæli í 2. gr. frv., að undanskilja vöru, sem útflutningsbann er á, hámarksverði, er borið fram í Nd. Jeg held, að sú hugsun, að undanskilja innlendar vörur, sem útflutningsbann er á, hámarksverði, miði til gagns fremur en ógagns, einnig frá sjónarmiði neytenda, því að þegar framleiðslan er ekki heft um skör fram, skapast samkepni, en það er engum vafa undirorpið, að þetta hámarksverð dró úr smjörframleiðslu í sumar. Mjer er vel kunnugt um það, að margir bændur á Suðurlandi voru í vetur sem leið fastákveðnir í að læra frá í sumar. En þeir hættu við það er hámarksverðið var lagt á smjörið. Þeir hafa gengið að því vísu, að ekki mundi hægt að selja smjörið hærra verði en ákveðið var í hámarksauglýsingunni, þó að reynslan hafi hins vegar síðar sýnt, að farið hefir verið fram hjá henni.

Jeg skal geta þess, í sambandi við þetta mál, að blað eitt hjer í bænum gat þess, að smjör hafi verið selt á Laugavegi fyrir 2 kr. pundið, og var mitt nafn nefnt í sambandi við þessa smjörsölu. Mjer er engin launung á, að þetta smjör var frá mjer. En þannig stóð á því, að 2 fjórðungar af smjöri frá mjer lágu og höfðu legið um hríð hjá kaupmanni einum á Laugaveginum. Þetta smjör átti að fara suður að sjó, fyrir eina vætt fiskjar, en af því, að það komst ekki suður í tæka tíð, sagði jeg kaupmanninum, að honum væri leyfilegt að hafa eða selja það, en að jeg vildi fá 2 kr. fyrir pundið og alls eigi minna. En þó að jeg fengi 2 kr. fyrir pundið, varð jeg þó að gjalda 15 kr. meira fyrir fiskvættina heldur en ef smjörið hefði komist sína leið. Þetta dæmi sýnir einmitt glögglega ranglæti hámarksverðsins.

Þá skal jeg minnast á brtt. hv. þm. Ísaf. (M. T.). Hún fer í þá átt, að landsstjórnin fái tillögur frá verðlagsnefnd, auk till. frá Búnaðarfjelaginu eða Fiskifjelaginu, er um það er að ræða að undanskilja innlendar vörur hámarksverði. Jeg geri þessa brtt. ekki að ágreiningsefni, síst eftir að hafa heyrt ræðu háttv. 6. landsk. þm. (G.B.).

Jeg þykist vita, eftir að hafa heyrt skoðun hans, sem verðlagsnefndarmanns, að þetta verði ekki til vandræða í framtíðinni. En hins vegar er það þetta, sem gerir mig óttasleginn við þessa brtt., að hún geti tafið fyrir framgangi frv., vegna naumleika þingtímanns. En ef jeg væri viss um, að hún tefði ekki framgang málsins, mundi jeg ekki gera þetta að neinu kappsmáli.

Jeg skal ekki fjölyrða um þetta frekar, en vænti þess, að frv. nái fram að ganga, því að þó að það geri ef til vill ekki mikla breytingu, og jeg geti gert mjer vonir um, að þetta jafnist, eftir að hafa heyrt ræðu háttv. 6. landsk. þm. (G.B.), þá ímynda jeg mjer, að þetta frv., með hinu nýja ákvæði, geri menn rólegri en ella.