28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í C-deild Alþingistíðinda. (3269)

159. mál, forkaupsréttur á jörðum

Gísli Sveinsson:

Jeg hjelt ekki, að umr. myndu verða svo miklar um þetta mál, á þessu stigi, eins og raun er á orðin. Það hefir verið tekið fram áður, í hinum miklu umr. um hin ýmsu frv. um þetta forkaupsrjettarmál, að öllum þessum ákvæðum væri betur komið, ef þeim væri fyrir komið í ein lög. Nú hefir verið svo gert, en samt geta verið eðlilegar ástæður til þess, að einstakir þingmenn komi með athugasemdir, sem ekki hafa áður komið, því að það er ekki nema eðlilegt, að menn sjái nú, við nánari athugun, ef til vill smágalla, sem þeir vilja fá lagfærða. En það verð jeg að taka undir með hv. frsm. (J. J.), að jeg hafði hugsað, að t. d. báðir þingmenn S.-M. (Sv. Ó. og B. St.), myndu samþykkir einhverjum ákvæðum í þá átt, er frv. fer, sem hjer liggur fyrir. Það er kunnugt um hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að hann lýsti sig móti þjóðjarðasölu að miklu leyti, og um hinn (B. St.) var það og kunnugt, að hann hallaðist, að því er virtist, á líka sveif, og hafði borið fram frv., sem átti að tryggja leiguábúð á jörðum landssjóðs. Frá mínu sjónarmiði er ekkert á móti því, að samþykt sjeu slík ákvæði hjer í þessari hv. deild, þótt hún sje búin að lýsa yfir því, að hún vilji, að þjóðjarðasölu sje haldið áfram, eins og komið er. Það hafa verið færð fram rök, sem eru óhrekjandi, fyrir því að halda áfram sölunni. Nú er búið að selja bestu jarðirnar, og ef nú væri kipt að sjer hendinni, væri það ærið misrjetti gagnvart þeim, sem vilja kaupa þær jarðir, sem eftir eru, og því misrjetti hefir enginn þeirra, er fengið hafa jarðirnar óhindrað áður, verið beittur. Hitt er annað spursmál og annað sjónarmið í málinu, að landssjóði sje heimilaður forkaupsrjettur, gengið út frá því að sjálfsögðu, að hann steypi sjer ekki í neitt jarðakaupabrask. Með því er landinu gefið tækifæri til að eignast einstakar jarðir, sem annaðhvort eru kostagripir, sem vel væru fallnar til að vera opinber eign, eða ella væri hætta á að fjellu í hendur misindismanna, sem annaðhvort færu illa með jarðir sínar eða braska með þær, eða þá í hendur útlendinga.

Þetta tvent getur vel samrýmst hvort öðru, og það er misskilningur hjá háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), að í því þurfi að vera nokkur knýjandi mótsögn, og að ekki megi samþykkja það. (E. A.: Jeg er ekki að meina mönnum að bíta í skottið á sjálfum sjer). Menn geta látið sitt skott hanga í friði, þótt þeir samþykki þetta frv.; það áhrærir ekkert málið. Hjer er í rauninni ekki um verulegt nýmæli að ræða, nema í síðasta kafla frv. (E. A.: Jú, í 2.kafla) Nei! (E. A.: Þá þekkir háttv. þm.

ekki löggjöfina). Jeg kalla ekkert nýmæli, nema þetta í síðasta kaflanum, með því að hitt er þaulrætt bæði fyr og síðar, þótt ekki hafi verið lögfest, Nýmælið er í síðasta kafla, um forkaupsrjett landssjóðs. Forkaupsrjettarmálið er alt svo vaxið, að það getur verið álitamál, hvort gefa eigi mönnum forkaupsrjett yfirleitt, en þegar bæði ábúanda og sveitarfjelagi hefir verið veittur forkaupsrjettur, er ekki frekar nú um neitt brot á almennum rjetti nje því síður stjórnarskrárbrot að ræða, þótt því sje við bætt, að landssjóður hafi forkaupsrjettinn á eftir einstökum mönnum og hreppsfjelögum. Það er ekki rjettarbrot, að eins eðlileg ráðstöfun, ef menn taka upp þessa stefnu, og gerir seljanda ekkert ilt, Að eins er það álitamál, hvort það geti tafið ofurlítið framkvæmd sölunnar. En sú töf er þegar fyrir. Seljandi varð að bjóða ábúanda og sveitarfjelaginu forkaupsrjettinn, samkvæmt þeim lögum, sem gilt hafa; er því spursmálið að eins um töfina við að bjóða landssjóði. Ef menn álíta eins mikilsvert og sumir hafa látið í veðri vaka, að landssjóður haldi jörðunum, getur það ekki álitist neinn glæpur þótt nokkrir dagar liði, meðan landssjóði er jörðin boðin. Það er alveg óhugsandi, sem háttv. 1. þm. S.-M, (Sv. Ó.) gerði ráð fyrir, að þessi bið gæti riðið mönnum að fullu fjárhagslega.

Hvað snertir 16. gr., sem menn hafa verið að sýta í, að hreppstjórar skuli hafa eftirlit með því, að ákvæðum 12. gr. sje hlýtt, og tilkynna sýslumanni, ef út af er brugðið, þá er þetta að eins ákvæði, sem ekki nær lengra en hægt er að fylgja. Ef hreppstjórar vita ekki um söluna, er þeim ekki skylt að gera gangskör að því frekar. En hið rjetta hlýtur brátt að koma fram, og þá kemur 15. gr., sem á við það atriði, er jörð er óleyfilega seld, og er þá landssjóði heimilað að rifta sölunni, innan vissra tímatakmarka, og kaupa fyrir sama verð og jörðin seldist síðast. Brtt. á þgskj. 468 er eðlileg. Salan hlýtur að vitnast, er kaup eru þinglesin, svo að landssjóður mun ætíð geta neytt rjettar síns, áður en 6 mánuðir eru liðnir.

Síðasta mótbára hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) gegn 12. gr. er fjarstæða ein. Þar stendur, með leyfi hv. forseta:

„Þegar jörð er til sölu, og hvorki einstaklingur nje sveitarfjelag vill nota kauprjett sinn samkvæmt því, sem áður er sagt í lögum þessum, skal jafnan skylt að bjóða landsstjórninni kaup á jörðinni fyrir landssjóð·.

Þetta vildi hann skilja svo, að þótt jörðin væri ekki til sölu, seljandi hefði hætt á miðri leið, ætti hann enn að halda áfram til landssjóðs. Þetta ber auðvitað að skilja, eins og orðin þýða, meðan jörðin er til sölu, en kemur ekki til, þegar jörðin er ekki til sölu.

Mjer hefir fundist, að frv. megi ná fram .að ganga, og sje því ekki, að ástæða sje fyrir hv. þdm. til að hindra það, með því að greiða atkvæði hinni rökstuddu dagskrá, sem fram er komin.