14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í C-deild Alþingistíðinda. (3402)

45. mál, erfðaábúð

Flm. (Björn Stefánsson):

Jeg býst við, að það þyki í nokkuð mikið ráðist að flytja þetta frv., þar sem mælt er, að stjórninni hafi þótt það ofvandasamt mál til þess, að hún hafi þóst geta veitt því viðunandi undirbúning þann stutta tíma, sem hún hefir haft til undirbúnings mála, og jafnannríkt og hún vitanlega hefir átt. Jeg veit ekki, hvort það er rjett, að það sje vandanum og tímaleysinu að kenna, að hæstv. stjórnin hefir ekki lagt fram frv., sem gengi í þessa átt, en mjer sýnast ástæðurnar á þgskj. 20 heldur benda á það, að hún sje hlynt því, að kjör leiguliða sjeu bætt, á þann veg, sem hjer er farið fram á. Þegar litið er til þess, hve mikið áhugamál ræktun landsins ætti öllum að vera, þá er það stór furða, að liðist skuli hafa fram á þennan dag, að leiguliðar hafa verið látnir sitja við þau kjör, sem gefa þeim sáralitla hvöt til að bæta og prýða býli sín. Það hefði mátt una við frestun til 1919, þegar litið er til þess óvissa verðlags, sem nú er á peningum, ef nokkurn veginn væri vissa fyrir því, að þetta mál kæmist í viðunanlegt horf þá. En nú eru þær ástæður fyrir hendi, að gera verður eitthvað strax. Jeg hefi ekki kynt mjer hugi allra þingmanna, en jeg hefi það hugboð, og því sem næst vissu, að ekki fáist frestun á þjóðjarðasölulögunum, enda ekki æskilegt að fá frestun, nema þetta kæmi í staðinn, en ef stjórnarfrv. verður felt, og þessu vísað til stjórnarinnar, þá er málið alt ónýtt orðið. 1919 verður slíkt frv. sem þetta óþarft, því að þá verður búið að selja allar jarðir, sem nokkurn tíma verða seldar, nema kann ske nokkrar útkjálkajarðir og heiðabýli, sem enginn dugandismaður kærir sig um.

Mjer þótti í fyrstu vænt um þjóðjarðasölulögin, því að jeg trúði á það, að þau mundu efla sjálfsábúð í landinu, en nú er mjer orðið lítið um þau og finnast þau ekki ná tilgangi sínum, því að jarðabrask það, sem orðið hefir vart við á síðustu árum, sýnir það ljóslega, að alla tryggingu vantar fyrir því, að þessar seldu jarðir haldist í sjálfsábúð, þegar fram líða stundir.

Sumir halda því fram, að auðvelt sje að reisa skorður við því, að margar jarðir safnist á einstakra manna hendur, og með ýmsu móti sporna við jarðabraskinu.

Jeg hefi fengið þessi og þvílík svör, en enginn hefir bent mjer á, hvernig ætti að fara að því, enda held jeg, að það sje fullkomið vandamál, því að jeg tel það fullkomin vandræði og neyðarúrræði, þegar þarf að takmarka athafnafrelsi og eignarrjett manna, umfram það, sem með nokkru móti verður hjá komist.

Þess vegna vil jeg byrgja brunninn, áður en barnið er dottið ofan í hann, því að eins tregur og jeg er að ráðast á athafnafrelsi og eignarrjett manna, þar sem mögulegt er hjá því að komast, eins er jeg fús á að reyna að fyrirbyggja, að til þeirra ráða þurfi að taka.

Þeim, sem þykjast geta dregið jarðeignir úr einstakra manna höndum með sæmilegu móti, skal jeg leyfa mjer að benda á annað verðugra verkefni en að leika sjer að því að selja jarðirnar og passa síðan upp á, að einstakir menn með fullum eignarrjetti á þeim fari með þær eftir því, sem hollast er landi og lýð. Jeg hygg, að það sje töluvert víða, sem verslunarstaðir og sjóþorp eru í landareign einstakra manna. Í þorpum þessum er fjöldi manna, húsmenn og þurrabúðarmenn, sem hefir mikla löngun að fá dálítinn blett til gras- og garðræktar, en geta ekki fengið það, þótt land sje til, með öðrum kjörum en þeim, að þeim er ekki láandi, þótt þeir hafni þeim. Jeg skal svo ekki fara lengra út í þetta mál.

Önnur ástæðan fyrir því, að mjer er ekki farið að verða um þessa þjóðjarðasölu, er bygð á því, að jeg hefi svo mikla trú á framförum þessa lands og þjóðar, að jeg vonast eftir, með tímanum, stórkostlegri verðhækkun á öllum jarðeignum í landinu. Þessa verðhækkun, sem verður fyrir rás viðburðanna, án þess að ábúendum sje hún að þakka, sje jeg enga ástæðu til að láta þjóðfjelagið gefa einstökum mönnum. Þó er þetta ekkert aðalatriði fyrir mjer; hitt þykir mjer margfalt meiru máli skifta, að leiguliðarnir njóti sinna eigin verka. Jeg vil miklu heldur — tel það miklu sanngjarnara — að einstaklingarnir njóti einhvers góðs af heildinni, umfram það, sem gengur alment yfir, heldur en að þjóðfjelagið ræni þá. Því er það, að þegar um þetta tvent er að velja, þá vil jeg heldur selja jarðirnar en halda leiguliðunum við þau kjör, sem þeir eiga nú við að búa.

Jeg hefi ef til vill gert leiguliðakjörin fullerfið í frv. þessu, þar sem þeir eftir því eiga að kaupa sín eigin verk á 100 ára fresti, en þá er aftur þess að gæta, að rentan, sem þeim er ætlað að greiða af jörð og húsum, er miklu lægri en hægt er að fá peninga eða annað verðmæti leigt fyrir nú á tímum. Ef til vill væri samt rjett að hafa peningagjaldið enn lægra, en láta nokkuð af afgjaldinu liggja í jarðabótum.

Þegar jeg tala um óviðunanleg leiguliðakjör, þá á jeg ekki við það, að eftirgjöld jarða sjeu ofhá, því fer fjarri, enda er jeg sannfærður um, að það myndi yfirleitt hækka eftir þessu frv. Það óviðunanlega liggur í því, að leiguliðarnir hafa enga tryggingu fyrir því, að þeir sjálfir eða erfingjar þeirra fái að njóta þess, sem þeir leggja í kostnað við jarðir sínar. Sá kostnaður, sem lagður er í jarðabætur, kemur ekki strax aftur. Oft þarf að bíða mörg ár eftir að fá hann borgaðan, og þá getur sá verið dauður, sem fje og erfiði lagði í þær. Að vísu mun mega treysta því, að erfingjar, ekkja eða börn verði að öllum jafnaði látin sitja fyrir öðrum, en trygging er þó engin fyrir því, og svo liggur ranglætið í því, að börnin verða að kaupa mannvirki feðra sinna með hækkuðu eftirgjaldi, þeirra vegna. Annað, sem jeg tel óviðunanlegt í leiguliðakjörunum, er það, hve tryggingarlausir þeir eru fyrir því að fá sanngjarnlega borgaðar þær húsabætur, sem þeir gera á jörðum sínum. Flestum leigujörðum fylgja ákveðin jarðarhús, með ákveðnu byggingarlagi, ákveðinni rafta- og stoðatölu, með ákveðinni hæð. Þetta er mörg hundruð ára gamalt byggingarlag, og geta allir sjeð, hve vel það fullnægir kröfum nútímans, en fullkomin áhætta að hreyfa til; þótt ekki sje annað en færð saman bæjarhús, sem fleiri álnatuga löng göng hafa verið á milli, þá eiga þeir á hættu að vera krafðir um fult verð ganganna, án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því, að af þeim verði keypt það, sem þeir hafa sett í staðinn, þótt stórum betra sje.

Þetta veit jeg að hefir átt sjer stað. Gæti jeg að vísu búist við, að þetta breyttist með breyttum aldaranda. Nú eru allar þessar opinberu jarðeignir að komast undir umráð hreppstjóranna, og þótt jeg beri gott traust til þeirra yfir höfuð, býst jeg við, að þeir reynist misjafnir, ekki síður en prestarnir, sem yfirráð hafa haft yfir kirkjujörðunum.

Vel má vera, að í frv. sjeu ekki nægilega tryggileg ákvæði um skyldur leiguliða. Jeg hafði ekki tíma til að setja inn í frv. sjálft nógu ítarleg ákvæði um það, og ljet því nægja að vísa til ábúðarlaganna frá 1884. Þar virtust vera allítarleg ákvæði um skyldur leiguliðans og eftirlit umráðamanns, ef vel væri eftir því gengið, en það mun nú vera orðin venja, að þeim sje slælega fylgt, svo að tryggara væri að setja ákvæði um það inn í þessi lög. Skýt jeg því til væntanlegrar nefndar að athuga það, ásamt öðrum missmíðum á frv.

Í 10. gr. er það tekið fram, að lögin öðlist gildi 1. jan. 1918. Þetta er ef til vill fullsnemt, því að auðvitað er það meining mín, að landskuld sje ákveðin eftir jarðamatinu, sem nú er fram að fara, en því verður ekki alstaðar lokið, því að sumstaðar er ekki einu sinni undirmati lokið, hvað þá yfirmati. Þau gela því ekki komið til framkvæmda fyr en matinu er lokið.

Helst hefði jeg kosið að taka fram í frv. þessu, að lög um sölu þjóðjarða væru úr gildi numin, svo að þær fengjust ekki keyptar nema með sjerstökum lögum frá Alþingi í hvert skifti, en af því að jeg óttaðist, að það myndi spilla fyrir frv., gerði jeg það ekki.

Loks sting jeg upp á, að frv. þessu sje vísað til landbúnaðarnefndar, að lokinni þessari umræðu.