08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í C-deild Alþingistíðinda. (3475)

121. mál, prestsmata

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg sagði, að stjórnin hefði álitið sjer heimilt að selja prestmötur, enda hefir það þráfaldlega verið gert, og enginn efast um, að það væri rjett. Þetta er orðin gömul venja eða hefð, sem jeg verð að skoða sem jafngilda lögum. Jeg verð að taka það fram aftur, að mjer finst það undarlegt og óviðkunnanlegt, að eftir frv. á að reikna vexti 4½% að því er snýr að seljanda, en að eins 4% er það snýr að landssjóði. Jeg fæ ekki betur sjeð en að með þessu sje í frv. hallað á landssjóð, en aftur á móti þeir, sem kaupa af sjer kvöðina, látnir sæta betri kjörum en þjóð- og kirkjujarða kaupendur eiga að sæta. Hjer í þessu frv. er tekið svo til, að kaupandi gefi skuldabrjef fyrir því, sem ógoldið er af verðhæðinni, með veði í fasteign, sem landsstjórnin taki gilt, en þegar um sölu á þjóð- og kirkjujörðum er að ræða, er það skýrt tekið fram, að það eigi að vera 1. veðrjettur. Af ofangreindum ástæðum sje jeg ekki betur en frv. sje með öllu óþarft og ekki allskostar rjettmætt, og vænti jeg því, þótt jeg láti mjer það í ljettu rúmi liggja, hvað við frv. verður gert, að hv. deild felli það.