14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í C-deild Alþingistíðinda. (3496)

129. mál, brýr á Hofsá og Selá

Einar Jónsson:

Sumir hv. þm. hafa skilið orð mín þver öfugt áðan. Hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) þótti undarlegt, að jeg skyldi segja, að árnar þyrftu brýr á sjálfar sig. Hann má vera undarlegur einfeldningur, ef hann skilur þetta ekki. Sami hv. þm. (Þorst. J.) sagðist ekki telja eftir fjárframlög til líkra fyrirtækja í Rangárvallasýslu. Jeg skal játa það, að fyrirhleðslan fyrir Þverá og Markarfljót hefir fengið góðan byr hjer, og er jeg þakklátur þeim hv. þm., sem stutt hafa það mál. En hjer er um alt annað að ræða; hjer er að ræða um smáár, sem jeg naumast veit, hvort renna til fjalls eða sjávar.

En í sambandi við þetta, þar sem hv. þm. Dala. (B.J.) var að bregða mjer unv fáfræði, þá vil jeg minna hann á Grímsá, sem hann kannaðist ekki við, og fellur þó rjett hjá túninu í Vallanesi. Það mætti þykja fávíslegra af þessum grískudósenti að vita ekki þetta en þótt jeg vissi ekki nöfn á öllum smásprænum. Það er alt annað að vilja leggja brýr á manndrápsvötn heldur en að vera svo steinblindaður af hreppapólitik að fara fram á brýr á bæjarlæki.

Jeg enda svo orð mín með því að biðja hv. 2. þm. N.-M. (Þorst.J.) og hv. þm. Dala. (B.J.) að fara ekki að slást í þrætur og mótþróa við mig, því að það getur orðið þeim ofdýrt spaug, áður en langt um líður.