09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í C-deild Alþingistíðinda. (3511)

133. mál, misærisskattur af tekjum

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hefi borið fram þetta frv. einu sinni áður hjer í deild; það var í þann tíð, er þingmenn ákváðu að leggja verðhækkunartoll á afurðir tveggja stjetta í landinu, leggja hann á sjómenn og bændur. Jeg hjelt því fram, og það reyndist rjett, að landssjóði mundi þörf á tekjum fram yfir það, sem ákveðið er í fjárlögum. Og þótt þörfin hafi ekki beint verið knýjandi fram að þessu, þykjast vitrir menn heyra hana berja nú hart á dyr. Þegar svo er komið, að auka þarf tekjur landsins með nýrri skattaálagning, þá er einasti rjetti vegurinn sá, að leggja skattgjaldið á alþjóð, eftir efnum og ástæðum, en ekki á einstakar stjettir eða atvinnuvegi, en sleppa hinum.

Jeg hefi heyrt það undir væng, þótt enn hafi eigi í hámæli komist, að hugur sumra hjer á þingi muni hneigjast að því að framlengja lögin um verðhækkunartollinn. Vildi jeg því, að þetta frv. væri til, er hitt kæmi fram, svo að þingið gæti valið á milli þessara tveggja leiða. Jeg efast ekki um, að minn vegur sje betri og rjettari en hinn. Það eru ýms ákvæði í frv. um, hvernig ná skuli skattinum, sem ábótavant mun vera. Jeg var einn um að semja það, því að aðrir, sem líklegastir voru til samvinnu við mig, lögðu svo mikið kapp á að fá fram verðhækkunartollinn, að þar var ekki aðstoðar að vænta. Varð jeg því að semja frv. eftir mínu eigin viti og erlendum fyrirmyndum, því að jeg hygg, að málið eigi að fara í nefnd og vera rannsakað þar. Grundvöllurinn er góður og þarf ekki rannsókn; það veit jeg; en ýms einstök atriði mega sjálfsagt betur fara en hjá mjer, og það verður hlutverk nefndar að athuga það Jeg get þess, að þeim takmörkum, sem í frv. eru sett um byrjunarupphæð tekjuskattsins, og eins hundraðstölunum, mætti breyta; það er mjer ekkert kappsmál.

En nú er það stjórnarinnar um að segja, hvort þörf muni á auknum skatti, annað hvort á þennan veg eða annan. Þurfi hans ekki, þá má bæði þetta frv. falla niður og engin þörf á verðhækkunartollsfrv. Vil jeg því, að frv. sje látið liggja, sem einskonar handveð, hjá fjárhagsnefnd, sem gripið sje til því að eins, að fram komi frv. um verðhækkunartoll, annars ekki.