10.08.1917
Efri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í C-deild Alþingistíðinda. (3566)

151. mál, vatnsafl í Sogninu

Forsætisráðherra (J.M.):

Það væri ekki nema eðlilegt, þótt spurt væri að því, hvers vegna mál sem þetta kæmi ekki frá stjórninni, því að umsóknir fjelagsins, sem fram hafa verið lagðar, eru stílaðar til stjórnarinnar. Jeg skal nú leyfa mjer að skýra frá því, hvernig þetta mál hefir komið til hennar.

Rjett áður en jeg fór heim frá Kaupmannahöfn, eftir dvöl mína þar í vor, þá komu þrír menn til mín, tveir menn, er ritað hafa undir beiðnina, etatsráð Monberg og Jarl, verkfræðingur og verksmiðjuforstjóri; hinn þriðji er verkfræðingurinn og þingmaðurinn Alexander Foss. Þá var beiðnin ekki undirrituð til fulls, því að þeir meðlimir stjórnarinnar, sem þá voru 3, sem búsettir eru hjer á landi, höfðu ekki skrifað undir hana.

Jeg gat ekki þá sagt neitt ákveðið um undirtektir stjórnarinnar í heild um þetta erindi, því að jeg gat ekki borið mig saman þar við samverkamenu mína í ráðuneytinu, svo að mál þetta varð áð bíða fyrst og fremst þangað til ráðuneytið gat borið sig saman um það hjer heima, en það varð ekki fyr en í þingbyrjun, því að atvinnumálaráðherra var fjarverandi er jeg kom og kom ekki heim fyr en þá.

En svo kom ekki beiðnin frá stjórn fjelagsins Ísland hjer fil landsstjórnarinnar fyr en í áliðnum júlímánuði, meðal annars af því, að eignaheimildir fjelagsins fyrir fossunum voru ekki að öllu í lagi. Af hverju það stafaði veit jeg ekki, en það varð opinbert þegar Reykjavíkurbær keypti hluta af Sogsfossunum.

Auk þess kom fram beiðni frá Reykjavíkurbæ um að taka eignarnámi vatnsaflið í Soginu. Stjórnin þóttist, meðan svo stóð, ekki geta tekið afstöðu til málsins. Nú er það kunnugt, að þessi óvissa um eignarheimildina er leyst. Það varð að samkomulagi, að þeir, er gerðu tilkall til eignarrjettarins (Reykjavíkurbær), yrðu í fjelagi að einhverju leyti um notkun fossanna.

Mjer virtist samt sem áður, að hjer væri um svo mikilvægt mál að ræða, að rjett væri að láta einhverja þingnefnd vita af því, að það væri á döfinni. Jeg skýrði því fjárhagsnefnd hv. Nd. frá því og sýndi henni beiðnina, rjett eftir að hún barst stjórninni, ef hún vildi athuga málið og leggja beiðnina fram á lestrarsal.

Þetta var gert eftir samkomulagi á milli ráðherranna.

En jeg get ekki sagt, að ráðuneytið hafi tekið afstöðu til málsins; jeg býst við, að afstaða hvers okkar ráðherranna sje ekki sú sama, og get jeg ekkert sagt fyrir ráðuneytið í heild sinni, en alt ráðuneytið er samdóma um það, að rjett sje að athuga það, því að það sje svo mikilsvert. Og það á að athuga málið þegar í stað, nema því að eins, að þingið vilji yfir höfuð ekki, að útlent fjármagn komi hingað og sje varið í slík fyrirtæki; þá á að vísa því strax á bug. En vilji þingið sinna málinu, þá er mikilsvert, að leiðbeiningar kæmu frá þinginu um það, hvernig á að taka í það.

Mjer er sagt, að það sje mikilsvarðandi, að svar gæti fengist um erindið nú þegar á þinginu, því að nú mun mega fá fje til fyrirtækisins, en óvíst sje að vita, hvort auðið verði að fá það síðar, ef færið er ekki notað nú.

Ef þetta mál, sem jeg tef sjálfsagt, fer til nefndar og hún athugar það, býst jeg við, að ráðuneytið sje fúst að vinna að málinu með henni.

Jeg get þegar sagt það fyrir mitt leyti, að jeg tel, að það sjeu aðallega þrjár spurningar, er þingið verður að leysa úr.

Hin fyrsta er sú, hvernig líta beri á mál þetta frá þjóðlegu sjónarmiði, eða sjónarmiði landsins sjálfs, nefnilega hvort leyfa eigi hjer stór útlend fjelög með miklu fjárafli, hvort það sje heppilegt fyrir þjóðfjelagið eða ekki.

Önnur spurningin er, hvernig tryggja eigi þjóðfjelagið, þegar um svona fyrirtæki er að ræða, t. d. verkamenn, barnauppeldi o. s. frv. Þetta er svo sjálfsagt, að það þarf ekki mikið um það að tala, og þetta atriði hefir verið mjög mikið athugað annarsstaðar, t. d. í Noregi.

Þriðja spurningin er um skattana, hvernig hægt sje að koma þeim fyrir svo, að þeir verði ekki beint fráfælandi fyrir þá, er vilja leggja fje í fyrirtækið, en þó sómasamlegir fyrir landssjóð.

Þetta eru þau aðalatriði, sem þingið verður að gera sjer ljós.

Hingað til hefir það ekki verið talið rjett hjer að bægja burt erlendu fje frá því að starfa í landinu, og hafa verið veitt einkaleyfi jafnvel, sem bygð eru á því, að notað yrði erlent fje, t. d. járnsandur og saltvinsla.

Fyrsta spurningin er þá um þetta, hvort menn eigi að bægja útlendu fje frá landinu. Það er vitanlegt, að stórt fyrirtæki, eins og þetta, er ekki hægt að ráðast í á næstu áratugum með innlendu fje, því að svo mikið fje er ekki til í landinu. Fjeð verður að vera erlent; um það getur ekki verið nein deila. Jeg get ekki talið neina hættu stafa af því fyrir þjóðfjelagið, þótt hið umbeðna leyfi væri veitt umræddu fjelagi með þeim kjörum, sem tryggileg þættu. Jeg hygg, að búa mætti svo um, að verkamenn væru trygðir, almenn skólafræðsla o. s. frv.

Vandasamasta atriðið, sem athuga þarf, er hvernig hægt sje að koma því svo fyrir, að landið verði vel trygt fjárhagslega. Þar getur eitt atriði komið til greina, sem komið hefir verið á í Noregi til tryggingar. Það er að setja þær kröfur, að öll mannvirkin falli til landsins, eftir einhvern ákveðinn, langan tíma.

Þessu ákvæði er þó, að því er jeg hygg, eigi beitt, ef fjelögin eiga sjálf vatnsaflið, er leyfið er veitt.

Eins og jeg hefi áður tekið fram þá hefir stjórnarráðið ekki tekið ákveðna afstöðu í málinu, en jeg, fyrir mitt leyti, teldi það óverjandi, ef það væri ekki tekið til nákvæmrar íhugunar áður en afdrif þess eru ákveðin. Slíkt væri með öllu óafsakanlegt, þar sem þetta mál er svo þýðingarmikið fyrir okkar stærsta bæjarfjelag og heilt sýslufjelag að auki.

Fyrir mitt leyti er jeg hlyntur frumvarpinu í aðalefni þess, en auðvitað eru ákvæði í frv., sem breyta þarf. Til dæmis tel jeg oflágt hundraðsgjald það, sem renna á í landssjóð af „nettó“-ágóða fyrirtækisins.

Þá vil jeg geta þess, að áður en jeg fór frá Kaupmannahöfn bað jeg hr. skrifstofustjóra Krabbe að láta mig fá álit sitt um mál þetta. En hann er, eins og háttv. þm. er kunnugt, viðurkendur fjármálamaður.

Mun jeg fús á að lána nefnd þeirri, sem væntanlega fjallar um málið, álit þetta.

Forgöngumenn þessa máls eru taldir einhverjir hinna helstu fjármálamanna og hafa yfir að ráða bæði fje og hinni bestu verklegu þekkingu. Mörgum er og hjer á landi kunnugt um þessa menn. Að minsta kosti ættu Reykvíkingar að þekkja til etatsráðs Monbergs, sem hefir tekið að sjer byggingu Reykjavíkurhafnar, sem nú er því nær lokið. Fje það, sem leggja á í fyrirtækið, er frá Danmörku og Noregi.

Vil jeg svo enda mál mitt með þeirri ósk, að frumvarpið verði tekið til rækilegrar íhugunar.