01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í C-deild Alþingistíðinda. (3618)

173. mál, skólahald næsta vetur

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Þessi till., sem nú er hjer til umræðu, hefir þegar mætt allhörðum dómum utan þings, og mætti því ætla, að til hennar væri stofnað af mikilli hvatvísi. En jeg held, að mjer sje óhætt að segja það, að dómar þeir, sem þegar hafa verið á hana lagðir, hafi ekki verið betur rökstuddir nje hugsaðir heldur en tillaga þessi var af nefndum þeim, sem bera hana fram.

Ef mál þetta er krufið til mergjar, þá kemur í ljós, að ástæður fyrir þessar till. eru margar, og skal jeg með mjög fám orðum nefna þær helstu.

Jeg vil þá nefna fyrst þá ástæðuna, sem sjerstaklega hefir verið gerð að umtalsefni af andmælendum tillögunnar, enda hefir hún verið álitin af þeim höfuðástæðan, þótt svo sje alls ekki. Þetta er sparnaðarástæðan. — Það, sem vitanlega er nú fram úr hófi dýrt við skólahaldið, er eldsneytið, eru kolin. Jeg þarf ekki að fjölyrða um þessa ástæðu; allir þekkja hana eins vel og nefndirnar, enda er hvort sem er ekki hægt að segja um með vissu, hversu miklu fje sá sparnaður nemur Hafa nefndirnar hvorki haft tíma nje tækifæri til að fá nákvæmar upplýsingar um það. Enda hefir þeim ekki þótt það skifta svo miklu. Jeg skal að eins geta þess, að ef engin kensla yrði hjer í háskólahúsinu í vetur, þá er mjer sagt, að við það myndu sparast 20—24 þús. kr. í kolum og gasi. Þótt nú kolin sjeu og verði afskaplega dýr, þá verður að leggja aðaláhersluna á það, áður en lagt er út í fullkomið skólahald í vetur, að vissa sje fyrir því að kol og koks verði nægileg í landinu. Fyrir þessu er enn engin vissa. Að eins von. Og þó að mikið af kolum kunni að koma til landsins, þá ber þess vel að gæta, að þau eru enn nauðsynlegri til margs annars en til þess að halda uppi skólunum. Er þar fyrst til að nefna landsspítalana og sjúkrahúsin í landinu, sem ekki má loka, og trauðla mun gerlegt að spara hita við. Þá verður einnig að vera vissa fyrir því, að oss skorti eigi kol handa skipum vorum, þeim, sem nú halda í oss lífinu og munu gera það. Einnig verður að vera vissa fyrir því, að eitthvað af botnvörpuskipum geti náð í fisk til matar handa landsmönnum, eftir því sem nauðsyn ber til.

Ekki má það heldur vera í óvissu, hvort heimili einstaklinganna geti náð í nægilegt eldsneyti. Það verður að sjá fyrir því, að fólk þurfi ekki að sitja í kulda, því að það getur orðið stórhættulegt fyrir þjóðina, þar sem af því hlyti að leiða heilsutjón einstaklinganna og aukinn manndauða. Alt þetta álitum vjer enn þýðingarmeira fyrir þjóðfjelagið heldur en þótt skólum yrði lokað í vetur. Verður þetta því að vera fulltrygt áður en lagt er út í fullkomið skólahald. Eru þá taldar þær ástæður, sem lúta að eldsneytinu.

Nefndunum virtist rjett að geta einnig þeirrar ástæðu, að ef einhver vafi kynni að leika á því, að nægur útlendur matur væri til í landinu, og þá sjerstaklega hjer í Reykjavík, þá sje ekki rjett að hrúga hingað fólki ofan úr sveitum. Menn munu nú sjálfsagt segja, að það megi á sama standa, því að alstaðar þurfi menn að eta, hvort sem þeir eru í sveit eða kaupstað. Ekki er hægt að mótmæla þessu, en hitt er víst, að ef matarskortur verður í landinu, vegna ónógra aðflutninga, þá kemur skorturinn fyr í kaupstaðina en í sveitirnar. í sveitunum verður fólki fleira til bjargar, og það er ljettara á útlenda matnum en kaupstaðarbúar. Menn munu sjálfsagt segja, að þetta sje bara grýla, því að varla muni oss mat skorta, en ekki virðist þó vissan fyrir því fullkomin og útlitið síst betra en verið hefir.

Enn er eftir að nefna eina af þeim höfuðástæðum, sem vöktu fyrir nefndunum, og er hún sú, að þeim fanst viðurhlutamikið að ætlast til þess, eða óbeinlínis hvetja til þess — en .það væri gert, ef skólum væri leyft að starfa á venjulegan hátt — að menn ofan úr sveitum gátu yfirleitt lagt fram eins mikið fje eins og mun þurfa, til þess að námsfólk lifi hjer í Reykjavík sæmilega í vetur, Það virðist næsta undarlegt og jafnvel ótrúlegt, að fjöldi þeirra manna, sem eiga að kosta sjálfa sig eða aðra hjer í Reykjavík í vetur, geti klofið þann kostnað án stórtjóns á efnum sínum og ástæðum nú á þessum erfiðu tímum. Ef menn geta þetta, þá er efnahag námsmanna og aðstandenda þeirra yfirleitt betur komið en áður hefir verið. Þessu er svarað þannig, að fólkið sjálft óski eftir þessu og vilji ganga að þessum kjörum, eða rjettara sagt ókjörum; — ókjör mega það kallast að greiða minst 10—1.200 kr. fyrir vetrarvist í Reykjavík, eins og útlit er fyrir. — Menn benda á, til sönnunar því, að fólkið sjálft treysti sjer til að standast þennan kostnað, hversu óðfúst það er að sækja um skólavistirnar. Jeg. held, að þetta sje ekki næg sönnun, því að jeg tel það áreiðanlegt, að fólk upp til sveita hafi alls enga hugmynd um, hversu dýrt verði að lifa hjer í Reykjavík næsta vetur. Væri því full ástæða til að stemma stigu fyrir því, að fólk í gáleysi hleypi sjer út í ókleifan kostnað.

Ef námsfólkið drifi hingað í baust á venjulegan hátt, án þess að gera sjer fulla grein fyrir kostnaðinum, þá mætti búast við því, að sumt yrði ef til vill að hætta á miðjum vetri, vegna fjárskorts. eða þótt svo færi, að það kæmist á einhvern hátt fram úr þessum vetri með lántökum eða öðru því um líku, þá gæti það lamast svo efnalega, að það ef til vill yrði að hætta við nám fyrir fult og alt. Og þá væri sannarlega betra fyrir námsmenn að bíða einn vetur heldur en að svo færi. Benda má einnig á það, að líkindi eru til, að heilsu fólks verði meiri hætta búin hjer í Reykjavík í vetur heldur en ella. Þegar allt er svo óhæfilega dýrt, munu allir kosta kapps um að spara svo, sem þeir frekast geta. Munu þeir þá fyrst og fremst reyna að spara það, sem dýrast er, en það eru kolin. Er því mjög hætt við, að námsfólkið geti beðið heilsutjón af kolasparnaði eða af því að sitja í kulda, en allir vita, að námsfólk er talsvert næmt fyrir sjúkdómum. — Menn gera mjög mikið úr því, hve rangt sje að stuðla til þess, að náms fólk tefjist heilan vetur og missi þannig heilt ár af lífi sínu, eins og menn komast að orði. En nefndirnar voru þeirrar skoðunar, að vegna hins gífurlega kostnaðar við skólavistirnar þá hlytu hvort sem er fleiri eða færri af nemendunum að tefjast, sakir efnaleysis. En það væri misrjetti, ef efnamennirnir tefðust ekkert, en að eins þeir fátæku, og til þess vildu nefndirnar ekki stuðla. Þessar ástæður ná auðvitað ekki til námsfólks heima í Reykjavík, og er Reykvíkingum ekki láandi, þótt þeir leggi alt kapp á, að skólum sje haldið uppi, þar sem þeir þurfa ekki að kosta sitt fólk meira þótt það gangi í skólana. En ekki fanst nefndunum rjett að halda uppi skólanum fyrir Reykvíkinga eina eða því sem næst, enda ber vel að gæta þess, að reykvískir námsmenn þurfa alls ekki að missa eins mikils í, þótt skólum sje lokað. Þeir geta eftir sem áður að meira eða minna leyti notið tilsagnar kennaranna, sem að sjálfsögðu mundu láta hana ókeypis í tje, eftir því sem hægt væri. Og væri sjálfsagt að bæta þeim upp, ef þeir þyrftu fyrir þær sakir að kosta meiru til um hita eða annað.

Allar þær ástæður, sem jeg hefi þegar tekið fram, vöktu fyrir nefndunum, en geta skal jeg þess, að einstakir nefndarmenn lögðu mismunandi áherslu á hverja ástæðu fyrir sig. Af því að jeg tala hjer fyrir munn 12 manna, þá get jeg búist næsta vetur við, að jeg láti einhvers ógetið, sem þeir kynnu að óska eftir að kæmi fram, og vona jeg, að þeir árjetti þá mitt mál.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um ástæðurnar fyrir tillögunni, en vona, að háttv. deildarmenn hafi þegar komist að raun um, að þetta mál hefir mjög alvarlegar hliðar.

Jeg þykist vita, að hv. deild sjái, að mál þetta er athugavert og alvarlegt; eins og sjá má á tillögunni er stjórninni að eins gefin heimild til að grípa til þeirra úrræða, er tillagan nefnir, en engin áskorun til hennar eða skipun; það mætti segja, að þetta væri nokkurskonar aðvörun til hennar að hafa vakandi auga á þessu vandamáli. Nefndin vill láta skoða það sem svo, að ef þessi tillaga er samþykt, þá hafi stjórnin heimild til að fara svona langt í þá áttina að stöðva skólahaldið, en lengra ekki. Nefndin leggur það alveg á vald stjórnarinnar að fara með þetta mál eins og hún álítur að hún geti best varið. Það er eðlilegt, að stjórninni sje fengið málið í hendur; hún er kunnugust og getur best dæmt um, hverjar líkur sjeu til, hvort það muni fyrir hendi, sem þarf til skólahaldsins, t. d. kol. Hún hlýtur og að hafa besta yfirsýn yfir afleiðingarnar af því, ef ekki er varlega að farið. enda ber hún og ábyrgðina á þeim.

Þá skal jeg benda á miðlunarleiðir, sem komu til mála í nefndinni. Ein var sú, sem nefnd hefir verið í blöðunum, að mentaskólahúsið skyldi haft til kenslu fyrir Háskólann, og mentaskólanemendur líka að einhverju leyti, eftir því sem fært þætti.

Önnur var sú, að hafa skólahald að eins nokkurn hluta skólaársins, t. d. síðara hluta vetrar, þótt ekki sýndist fært að hafa það allan tímann.

Hvað sem stjórnin ræður af í þessu máli, þá mælist nefndin til, að hún geri ráðstafanir sínar sem fyrst og fari sem varlegast; það má altaf auka skólahaldið síðar, ef horfur batna.

Þá skal jeg loks minnast lítið eitt á einstaka liði tillögunnar.

Um fyrsta liðinn þarf jeg ekki að fjölyrða. Það skilja sjálfsagt allir, að það vakti fyrir nefndinni, að síst mætti tefja þá háskólanemendur, sem ætla að taka fyrri eða síðari hluta embættisprófs í vetur eða vor; því leggur hún til, að sjerstakar ráðstafanir sjeu gerðar til þess, að þeir geti notið kenslu á komandi vetri. Síðari hluti 2. liðs miðar að því, að nemendur í hinum almenna mentaskóla og gagnfræðaskólanum á Akureyri fái leyfi til að ganga undir vorpróf á venjulegan hátt, og að þeir skuli einkis í missa fyrir aldurs sakir. Það leiðir og af sjálfu sjer, að nefndin ætlast til, að inntökupróf fari fram í mentaskólanum og öðrum slíkum skólum að vori, eins og vant er, hvort sem skóli verður haldinn eða ekki.

Um 3. og 4. lið hefi jeg ekkert sjerstakt fram að taka.

Þá kem jeg að 5. lið. Nefndinni þótti það óviðeigandi að veita öðrum skólum styrk til rekstrar þeirra, ef þingið treysti sjer ekki til að ráða til þess, að skólum landsins sjálfs væri haldið uppi. Nú er komin fram brtt. frá hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) um að breyta nokkuð orðalagi liðsins. Jeg sje ekki ástæðu til að samþykkja þessa brtt., því að eftir áliti nefndarinnar er stjórninni ætlað að ráða fram úr þessu, en ef tillagan er samþykt, er lögð skylda á stjórnina að fara styttra í þessu atriði en nefndin ætlast til.

7. liðurinn er sjálfsagður. Engum hefir dottið í hug, að kennarar við skólana skyldu missa laun við það, þótt skólunum yrði ekki haldið í sama horfi sem áður. En það hafa verið gerðar athugasemdir út af þeim orðum liðsins: „jafnt stundakennurum sem öðrum“. Það sýnist sjálfsagt, að stundakennarar, sem að undanförnu hafa lifað á þessari kenslu sinni, eigi ekki fremur að missa stundakenslulaun sín fyrir þessa ráðstöfun en föstu kennararnir sín laun. Orðin „eftir því sem verið hefir“, eru sett til þess, að ekki gætu komið nýir menn og krafist launa, af því að þeir hefðu ætlað sjer að sækja um stundakenslu næsta vetur.

Jeg vona nú, þar sem tillagan er þannig skýrð, að hv. deild taki henni vinsamlega. Jeg held, að ekki væri rjett, eftir því ástandi sem nú er, að fella hana. Ef hún yrði feld, skilst mjer það vera sama sem að banna stjórninni að ganga svolangt, sem hún fyrirskipar, og í öðru lagi að fyrirskipa venjulega skólaskyldu, hvernig sem á stendur.