01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í C-deild Alþingistíðinda. (3623)

173. mál, skólahald næsta vetur

Atvinnumálaráðherra (S.J.):

Jeg skildi háttv. frsm. (M.P.) svo, að tillagan ætti að eins að hvetja stjórnina til að fara varlega. Stjórnin ætti að ákveða, hvað af yrði ráðið, og hún bæri ábyrgð á því. Jeg lít svo á, að frekar sje hægt að halda skólana fyrri hluta vetrar heldur en síðari hluta. En jeg skildi háttv. frsm. (M.P.) svo, að opna mætti skólana seinna, þótt ekki yrði byrjað á þeim strax í haust. Jeg get ekki verið á sama máli um það. Jeg hygg, að það sje nokkurn veginn ábyggilegt, að hægt verði að halda skólunum fyrri hluta vetrarins, en ekki eins víst um það, hvort hægt mundi að halda þeim uppi síðari hlutann. Háttv. þm. Dala. (B.J.) sagði, að stjórnin ætti að halda skólunum uppi, ef hún væri viss um, að nægar birgðir væru fyrir hendi af matvælum og eldsneyti. Það er nú erfitt að vera alveg viss um það, en miklar líkur eru til, að hægt verði að halda skólanum alllangan tíma. Stjórnin í heild sinni hefir ekki tekið afstöðu til þessa máls. Hún fer auðvitað nokkuð eflir því, hvernig umræður falla hjer og þingviljinn kemur fram, svo að ótvírætt sje, og tekur svo ákvarðanir sínar í samráði við forstöðumenn skólanna.

Í 4. lið tillögunnar sje jeg að lagt er til, að bændaskólarnir falli niður. Jeg álít, að síst sje ástæða til að loka þeim. Jeg hefi talað við skólastjórana báða, og þeir hafa tjáð mjer, að skólarnir eigi talsvert af kolum, og innlent eldsneyti sje fáanlegt í sveitunum þar í kring. Nemendur eru þegar farnir að viða að til vetrarins, og yrði því stórmikill bagi, ef skólunum yrði lokað. Aðsóknin að Hvanneyrarskólanum er meiri en hægt sje við að taka, og flestir af umsækjendum eru þroskaðir menn, sem treystandi er til að sjá fótum sínum forráð, og óhætt mun að hleypi sjer ekki í kostnaðinn við skólanám, án þess að sjá sjer fært að kljúfa hann. Það er því tæplega annað að óttast en eldsneyti og ljósmeti, en af því þarf ekki miklu við að bæta. Hvanneyrarskólinn mundi komast af með 5 smál. af kolum. Jeg vildi því leggja til, að skólunum á Hólum og Hvanneyri yrði haldið. Það er vel kleift fyrir pilta að sækja þá. En ekkert væri á móti því, að minni hyggju, að skólatíminn væri heldur styttri en venja er til.