27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í C-deild Alþingistíðinda. (3666)

155. mál, rannsókn hafnarstaða

Atvinnumálaráðherra (S.J.):

Sem eðlilegt er eru það helst þingmenn S.-M., sem bera þetta mál fyrir brjósti. Viðvíkjandi ummælum hv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) skal jeg geta þess, að stjórnin reyndi hvað hún gat í vetur til að halda Jóni verkfræðingi Ísleifssyni áfram í þjónustu landsins. En hann reyndist ófáanlegur, kvaðst vera bundinn samningum við bæjarstjórnina í Hafnarfirði.

Hv. 2. þm. S.-M. (B.St.) veittist örðugt að trúa því, að stjórnin hafi ekki getað útvegað mann til umræddra rannsókna. Það má vel vera, að honum veitist örðugt að trúa því, en jeg vona, að flestir þm. aðrir skilji örðugleikana á því að útvega verkfræðinga á þessum tímum. Í Noregi er mesti verkfræðingahörgull. Verkfræðingar þeir, sem við höfum hjer heima, gætu þar fengið miklu hærra kaup en þeir fá hjer. En þeir vilja helst láta land sitt njóta krafta sinna Þrátt fyrir hina veiku trú 2. þm. S.-M. (B.St.) þá er stjórninni mikið áhugamál, að þetta geti komið til framkvæmda. Það er góð von um, að Kirk fáist í haust, og með vonina verður maður að láta sjer nægja, þegar ekki er kostur á vissunni.