03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Framsm. (Magnús Guðmundsson):

Það er eins með þetta mál og næsta mál á undan, að það er komið aftur frá hæstv. Ed., sem hefir breytt því í einu atriði, sem sje því, að í stað þess, að í frv., þegar það var afgreitt, frá þessari háttv. deild, stóð, að ¾ af ágóðanum af steinolíuversluninni skyldi renna í landssjóð, en 1/4 í veltufjár- og varasjóð, hefir nú hæstv. Ed. sett, að helmingur ágóðans skyldi renna í landssjóð, og hinn helmingurinn í varasjóð. Að öðru leyti er frumv. óbreytt. Jeg skal geta þess, að nefndinni þótti þessi breyting ekki vera til bóta, því að henni þótti nóg að láta ¼ af ágóðanum renna í veltufjár- og varasjóð, einmitt með tilliti til þess, að gjaldið af hverri tunnu var hækkað frá því, sem það var í frv. stjórnarinnar. En af því að þetta kemur í raun og veru í sama stað niður, þar sem alt, er versluninni við kemur, er landssjóðs eign, þótti nefndinni ekki taka því að breyta frv. aftur, og leyfir sjer því að leggja til, að það verði samþykt, eins og það nú liggur fyrir.