05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Gísli Sveinsson:

Jeg stend upp í sömu erindum og háttv. þm. Dala. (B. J.). Mjer kemur það einkennilega fyrir sjónir og eyru, að háttv. þm. (B. J) skuli tala um þetta sem sjálfsagt og brátt gróðafyrirtæki fyrir sýslufjelag það, er hlut á að máli. Þetta er fyrst og fremst vörn við skemdum. Þess vegna tekur landsverkfræðingur svo til, að landið skuli bera mestan kostnað. Þetta er alveg öfugt við annað frv., sem lagt er fram hjer á Alþingi, sem sje frv. um Flóaáveituna, sem er hreint ræktunarfyrirtæki. Þar er gert ráð fyrir, að landssjóður leggi til ¼ kostnaðar, en jarðeigendur eða fjelög þeirra ¾. Þar er að ræða um einbert ræktunarfyrirtæki, sem menn eru sannfærðir um að veiti fljótan og beinan gróða, jafnskjótt sem það kemst á. Hjer er alt öðru máli að gegna. Allur arður er hjer svo óviss og seintekinn, að ekki getur komið til mála, að landssjóður heimti aftur þegar það fje, er hann hefir lagt fram í varnir. Þótt víst sje, að verkið muni varna frekari skemdum, veit enginn, hvort það, sem áður er skemt, grær upp. (P. J. : Það vita bæði guð og menn). Getur vel verið, að hinn háttv. þm. (P. J.), sem aldrei hefir komið á staðinn, viti þetta. (P. J.: Jeg veit eins vel og þingmaðurinn, hvað aðrir menn vita). Jeg veit vel, að hinn háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) veit ekki það, sem jeg veit í þessu máli, af alveg sjerstökum ástæðum. En hann kann að vita það, sem menn alment vita.

Hjer er þá alls ekki um það að ræða að stinga fje í vasa einstakra manna. Ef jafna mætti þessu fyrirtæki við önnur, mætti taka til dæmis brúarfyrirtæki. En nú stendur einmitt svo á, að þegar búið er að veita Þverá í Markarfljót, verður það svo mikið, að það verður að brúa, og einmitt í stokk, sem myndast við þessa fyrirhleðslu. Einmitt það, að þetta fyrirtæki kemst á, greiðir fyrir því, að fljótið verði brúað. Allir þræðir safnast að því, að vatninu verði veitt í stokk og þá brúað. Að öðrum kosti kemst brúin ekki á. En hver kostar brúarfyrirtæki og önnur þess háttar í landi hjer? Er það ekki landssjóður allajafna? Jeg held það.

Jeg tel þarflaust að lengja umræður nú við 1. umr. Tel jeg víst, að hver nefnd sem er líti sanngjarnlega á málið og eins háttv. fjárveitinganefnd, þótt formaður hennar láti svo ófriðlega. Þetta er fjárlagaatriði, og á því að rjettu lagi heima í þeirri nefnd.