23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Sigurður Sigurðsson:

Mjer þótti leitt, að háttv. framsm. (M. P.) og nefndin öll skyldi ekki geta tekið betur tillögu okkar þingmanna Árnesinga um styrkinn til vegarins í Gaulverjabæjarhreppi. Jeg bjóst reyndar aldrei við, að háttvirtur framsm. mundi styðja þessa tillögu, en hins vænti jeg, að sumir aðrir í nefndinni mundu ekki verða henni mótfallnir. Jeg skal nú ekki fást meira um það. En jeg vil taka fram, að hjer er ekki um neinn heybandsveg að ræða, heldur um venjulegan sveitar- og sýsluveg, sem kemur að notum Gaulverjabæjarhreppi og parti af Villingaholtshreppi. Vegurinn er kaupstaðarvegur fyrir þetta svæði. Annars skal jeg játa það, að ekki liggur fyrir nein ákveðin áætlun frá verkfræðingi um það, hvað vegurinn muni kosta. En óhætt mun að fullyrða, að það verði varla undir 10000 kr. Till. fer ekki fram á nema 2000—3000 kr. framlag úr landssjóði. Það segir sig sjálft, að það, sem til vantar, lendir á hreppnum og sýslunni. Þótt ekki sje nein yfirlýsing um það í umsókninni, þá er auðvitað hægt að ganga út frá því sem gefnu. Að þessu leyti er hjer líkt háttað og með veginn í Fljótshlíð og Svarfaðardal, að vegurinn verður lagður fyrir sveitar- og sýslufje að miklu leyti, þótt landssjóður veiti styrk til hans. Jeg tel því fyllilega sanngjarnt að mælast til þessa styrks, og vænti, að hann verði samþyktur, varatillagan að minsta kosti.

Það er rjett hjá háttv. framsm. (M. P.), að hækkun fjárveitingarinnar til símarekstrar er meiri hjá stjórninni en hjá nefndinni. Væri gott að fá einhverja skýringu á því, hvernig á þeirri hækkun stendur, því að jeg sný ekki aftur með það, að greinargerðin fyrir þessari hækkun er mjög ófullkomin frá stjórnarinnar hálfu. Stjórnin hefir yfirleitt verið mjög sparsöm í fjárveitingum sínum. En mjer finst varla gæta sama sparnaðar við þennan lið, eins og við suma aðra. Það kemur sjer því illa, að fyrir þessum lið skuli vera svona lítil grein gerð, því að slíkar greinargerðir, ef þær eru ítarlegar, eru ágætar til leiðbeiningar og geta ráðið alveg úrslitum einstakra atriða við atkvæðagreiðsluna. Jeg get ekki látið vera að segja, að mjer finst það dálítið óviðkunnanlegt að vera nú að hækka laun við þessa stofnun, ef til vill með dýrtíðina fyrir augum, um leið og verið er að ákveða sömu mönnum dýrtíðaruppbót, eins og öðrum starfsmönnum landssjóðs. Jeg held, að stjórn og þing ætti að fara varlega í þær sakir að veita mönnum á þennan hátt tvöfalda dýrtíðaruppbót. Þessar launahækkanir til símans hafa líka oftast lent að miklu leyti hjá hæstlaunuðu mönnunum, en síður komið símaþjónunum að notum, sem mest hefðu þurft hækkunar með.

Jeg get ekki látið vera að gera stutta athugasemd, þótt það heyri mjer ekki beinlínis til, út af orðum hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), þar sem hann var að gera grein fyrir fjárveitingum til vega. Hann gat þess, að þegar fjárveiting lækkaði til einhvers vegarkafla, þá mætti fækka verkafólkinu, sem að honum ynni. Jeg vildi minna á það í því sambandi, að það er líka dýrt að hafa dýran verkstjóra yfir fáu fólki. Þetta hefir oft viðgengist við okkar vegagerð, en er megnasti ósiður, sem þyrfti að laga. Jeg gæti jafnvel bent á eitt dæmi, hjerna í nágrenni við Reykjavík, þar sem dýr verkstjóri er hafður yfir fáeinum hræðum. Litlar fjárveitingar geta stutt að þessu, og þess vegna er ekki vert að búta fjárveitingar til vega mjög í sundur. Jeg gat ekki stilt mig um að gera þessa athugasemd, þótt hún sje ekki nema ein af mörgum, sem ástæða væri til að gera.